Túrkísblátt sjónarspil í Mývatni

Sjónarspilið var einstakt í Mývatni í gær.
Sjónarspilið var einstakt í Mývatni í gær. Ljósmynd/Árni Einarsson

„Þetta er mjög sérstakt,“ segir Árni Einarsson, náttúrufræðingur hjá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn, um túrkísbláa rönd sem myndaðist við strönd Mývatns í gær. Um er að ræða svokallaðar blábakteríur sem leysast upp í vatninu og losa frá sér örsmá lofthylki sem lita vatnið þessum einstaka bláma. 

Árni segir að óvanalegt sé að blái liturinn sjáist með þessum hætti á Íslandi. Aðeins séu innan við tíu vötn hér á landi sem hafa bakteríurnar í slíku magni. 

Óvenjulegt er að liturinn sjáist svo vel í vötnum hér …
Óvenjulegt er að liturinn sjáist svo vel í vötnum hér á landi. Ljósmynd/Árni Einarsson

„Þetta gerist í vötnum sem eru frekar næringarauðug, eru með mikið af næringarefnum. Það er frekar óvanalegt að þetta gerist á Íslandi því við erum það norðarlega en það eru þó nokkur vötn sem hafa alltaf haft svona bakteríur og þar á meðal er Mývatn,“ segir Árni. 

Sérstök skilyrði þurfa jafnframt að vera fyrir hendi svo liturinn sjáist því hreyfing á vatninu verður til þess að bakteríurnar hreyfast með og liturinn dofnar. 

„Maður þarf að vera á réttum stað og réttum tíma til þess að sjá þetta,“ segir hann.

Hér má sjá Facebook-færslu Náttúrurannsóknastöðvarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert