Lét öllum illum látum og endaði í klefa

Lögreglustöðin Hverfisgötu.
Lögreglustöðin Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Beiðni um aðstoð barst til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skömmu fyrir miðnætti í gær vegna ferðamanns sem lét öllum illum látum á gistiheimili í miðborginni. Maðurinn brást illa við afskiptum lögreglu og veitti harða mótspyrnu við handtöku. Hann er því vistaður í fangageymslu. Töluvert var um útköll hjá lögreglu vegna hávaða og ölvunar í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Einn gistir fangaklefa á lögreglustöðinni á Akureyri eftir deilur við annan mann. Báðir voru mennirnir ölvaðir. Að öðru leyti var nóttin róleg hjá lögreglunni á Akureyri.

Um miðnætti stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna. Á lögreglustöð sýndi fíkniefnapróf jákvæða svörun við öllum tegundum fíkniefna. Ökumaður var látinn laus að lokinni sýnatöku. 

Fjórir ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt vegna aksturs undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Einn þeirra var jafnframt próflaus. Þeir voru allir látnir lausir að lokinni sýnatöku.

Á öðrum tímanum í nótt óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs farþega sem gat ekki greitt fargjaldið. Málið var leyst á vettvangi, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert