Fékk flugvélarhurð á sig og slasaðist

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Rax

Flugvirki á Keflavíkurflugvelli sem var að vinna við hurð aftast á flugvél slasaðist í vikunni er hurð var skyndilega opnuð og lenti á andliti hans með þeim afleiðingum að hann hlaut nokkra áverka og vankaðist. Þetta er eitt af þremur vinnuslysum sem var tilkynnt um í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum það sem af er vikunni.

Annar starfsmaður féll um rekkverk á skipi sem lá í Njarðvíkurhöfn og er talið að hann hafi fótbrotnað. Voru bæði hann og flugvirkinn fluttir af vettvangi með sjúkrabifreið.

Þá féll karlmaður sem var við vinnu sína af palli og lenti illa á hægri öxl. Var hann fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.

mbl.is