Mikill erill hjá lögregluembættum í nótt

Líkamsárás í Sandgerði og fíkniefnaakstur voru meðal verkefna lögreglu í …
Líkamsárás í Sandgerði og fíkniefnaakstur voru meðal verkefna lögreglu í nótt. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Lögregla var kölluð að heimahúsi í Sandgerði rétt eftir miðnætti þar sem tilkynnt var um líkamsárás. Nokkrir voru handteknir og eru í haldi lögreglu. Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag. Brotaþoli líkamsárásarinnar var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Þrír gistu fangaklefa á Akureyri í nótt, þar af tveir vegna ölvunarástands. Tveir ökumenn voru teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá var talsvert mikill erill í fólki sem hafði safnast saman í miðbænum í tilefni Akureyrarvöku og þurfti lögregla að hafa afskipti af fólki m.a. vegna ofdrykkju.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda verkefna í nótt. Tveir menn voru vistaðir í fangageymslu sökum ástands. Annar þeirra hafði lagst til hvílu á þyrlupalli við Landspítalann í Fossvogi og lögreglan kom að hinum sofandi undir stýri í Vesturbæ Reykjavíkur.

Þrír menn voru handteknir eftir umferðaróhapp í Kópavogi, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna ásamt því að hafa fíkniefni í vörslum sínum. Einn til viðbótar var handtekinn í Kópavogi grunaður um þjófnað úr verslun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert