Hjóluðu hringinn á sjö dögum

Thomsen með hvítan hjálm og Vendelbjerg með svartan.
Thomsen með hvítan hjálm og Vendelbjerg með svartan. Ljósmynd/Aðsend

Í seinni hluta ágústmánaðar hjóluðu tveir danskir ofurhugar hringinn í kringum Ísland á sjö dögum. Þeir Simon Thomsen og Rasmus Rask Vendelbjerg hjóluðu í 7-8 klukkustundir á degi hverjum og náðu að fara um 160-240 kílómetra en meðalhraði þeirra var rétt undir 30 km/klst.

Thomsen og Vendelbjerg eru báðir 28 ára gamlir og höfðu lengi haft ferðalagið að markmiði en þriggja manna myndatökuteymi fylgdi þeim eftir á ferðalaginu. Afraksturinn verður svo sýndur í þáttaröð um skemmtilegar leiðir fyrir hjólreiðafólk að fara. Vandelbjerg svaraði nokkrum spurningum um ferðalagið.

Það þarf úthald í að hjóla hringinn.
Það þarf úthald í að hjóla hringinn. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju að hjóla hringinn í kringum Ísland? 

„Við höfum farið á vinsælustu hjólaleiðirnar í Suður- og Vestur-Evrópu þannig að þá var það bara að spurningin um hvert við skyldum halda næst? Okkur langaði að fara nýja og minna farna leið. Báðir höfðum við komið nokkrum sinnum til Íslands. Fjölbreytni og fegurð landslagsins hefur heillað okkur. Okkur fannst ekki mikið um hjólreiðafólk þar sem við höfðum komið og fannst það undarlegt. Þannig kom þetta til.“

Þeir félagar eru vanir að fá skjól frá skóglendi eða …
Þeir félagar eru vanir að fá skjól frá skóglendi eða byggingum. Því er ekki að heilsa á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var veðrið? 

„Í samanburði við besta sumar allra tíma í Danmörku var þetta köld og blaut lífsreynsla. Samt sem áður virðumst við hafa fengið betra veður en var á landinu mestallt sumarið. Að því leyti vorum við heppnir. Það rigndi í tvo daga en nokkrir dagar voru bjartir á Norður- og Austurlandi. Vindurinn var okkar stærsta áskorun. Við erum vanir skjóli frá byggingum og skóglendi en á Íslandi hjóluðum við hundruð kílómetra við fjallsrætur þar sem vindurinn magnast upp.

Félagarnir hjóluðu í 7-8 klukkustundir á degi hverjum.
Félagarnir hjóluðu í 7-8 klukkustundir á degi hverjum. Ljósmynd/Aðsend

Maður tekur alltaf vind, kulda og bleytu með í reikninginn en þetta verður aldrei stórt vandamál nema að allir þrír þættir verki saman í einu. Það gerðist þegar við vorum að fara framhjá Jökulsárlóni þar sem við þurftum að stoppa á Hofi og leggjast upp við ofn til að ná tilfinningunni að nýju í líkamann.“

Kvikmyndatökuliðið hélt sig yfirleitt fyrir aftan hólreiðamennina.
Kvikmyndatökuliðið hélt sig yfirleitt fyrir aftan hólreiðamennina. Ljósmynd/Aðsend

Varasamir vegir

Samkvæmt ráðum heimamanna hjóluðu þeir réttsælis um landið. Myndatökuteymið fylgdi hjólreiðamönnunum eftir í húsbíl sem fjölgaði gistimöguleikum en veitti þeim einnig vörn á vegunum.

Brekkurnar eru nokkrar á veginum í kringum landið.
Brekkurnar eru nokkrar á veginum í kringum landið. Ljósmynd/Aðsend

Nú eru vegirnir á Íslandi gjarnan þröngir og á þeim keyra fjölmargir ferðamenn sem ekki eru vanir íslenskum aðstæðum. Fannst ykkur þið alltaf vera öruggir á ferðalaginu? 

„Yfirleitt fannst okkur þetta í lagi, já. Umferðin var frekar þung í nágrenni Reykjavíkur. Allt í allt voru þetta ekki nema 4-6 klukkustundir í heildina þar sem við hjóluðum í mikilli umferð. Á Norður- og Austurlandi var lítil umferð og þeir fáu sem við mættum sýndu okkur skilning og gáfu okkur pláss. Reyndar voru margir sem hvöttu okkur áfram sem var hvatning á erfiðum dögum! Fólk hafði varað okkur við því að fólk væri ekki vant hjólreiðafólki á vegunum og þetta var það sem við höfðum mestar áhyggjur af. Þannig að við erum þakklátir fyrir þetta. Síðustu 100 kílómetrarnir í átt að Reykjavík voru þó varasamir þegar við hjóluðum upp Kambana. Eftir 7 daga hjólreiðaferðalag var það ekki góð hugmynd og eflaust hafa einhverjir ökumenn orðið pirraðir á okkur. Afsakið okkur, Íslendingar!“

Rasmus Rask Vendelbjerg er 28 ára gamall blaðamaður.
Rasmus Rask Vendelbjerg er 28 ára gamall blaðamaður. Ljósmynd/Aðsend

Var markmiðið alltaf að klára ferðalagið á sjö dögum?

„Já, það var alltaf markmiðið en þetta var þó mun meira en við höfum nokkru sinni lagt í áður þannig að einhver óvissa var tengd því. Eftir því sem á leið sáum við að þetta væri gerlegt og efldi okkur í að ná takmarkinu. Frændi minn býr líka á Íslandi og starfar sem leiðsögumaður og gaf okkur góð ráð. Hann sagði hinsvegar að sjö dagar væru of lítill tími sem varð okkur hvatning. Að sýna honum að við gætum þetta.“

Hringnum lokað á Skólavörðuholti.
Hringnum lokað á Skólavörðuholti. Ljósmynd/Aðsend

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart?

„Við höfðum undirbúið okkur í nokkurn tíma og komið margoft til landsins, þannig að við vissum að miklu leyti hvað við værum að fara út í. Að því sögðu vorum við ekki undir það búnir hvað vindurinn hefði mikil áhrif. Heilu dagana hjóluðum við í miklum mótvindi sem hafði mikil áhrif bæði á líkamlegt og andlegt ástand. Það er lýjandi. Þá hafði hávaðinn í vindinum áhrif á samskiptin okkar í milli og gerði þau erfiðari.

Margir ökumenn hvöttu félagana áfram.
Margir ökumenn hvöttu félagana áfram. Ljósmynd/Aðsend

Fjölbreytni landslagsins kom okkur líka á óvart en okkur fannst eins og við hefðum farið í gegnum heila heimsálfu á leiðinni. Annað sem við gerðum ekki ráð fyrir var matarlystin sem maður fær eftir svona ferðalag. Við vorum óseðjandi í kjölfarið og veitingastaðir og barir í Reykjavík hafa notið góðs af því!“ 

Skyggnið var ekki alltaf gott.
Skyggnið var ekki alltaf gott. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig verður þáttaröðin?

„Við erum að reyna að vekja áhuga fólks á að velja sér óvenjulega áfangastaði til að hjóla á. Frakkland, Belgía, Ítalía og Spánn eru vinsælir staðir en aðrir staðir eru ekki minna spennandi til að hjóla á. Sjónarhornið er persónulegt þar sem áhorfandinn fær innsýn í sálarstríðið innra með manni og þær hindranir sem við þurfum að yfirstíga á svona krefjandi ferðalagi. Okkur finnst líka mikilvægt að sýna fram á að það sé hægt að skoða Ísland án þess að vera á bíl eða í þyrlu.

Meðalhraði var rétt undir 30 km/klst.
Meðalhraði var rétt undir 30 km/klst. Ljósmynd/Aðsend

Ferðaiðnaðurinn blómstrar augljóslega á Íslandi en afleiðingarnar eru ekki alltaf góðar. Fólk kemur til að sjá hreina og ósnortna náttúru, en álagið á náttúruna er í samræmi við það og víða er fjöldi ferðamanna yfirgengilegur. Okkur langaði að sýna fólki fram á hvað það er frábært að njóta landsins og ferska loftsins á hjólum.“ 

Ferðalagið var lengi í undirbúningi.
Ferðalagið var lengi í undirbúningi. Ljósmynd/Aðsend
Besta veðrið var á norður- og austurlandi.
Besta veðrið var á norður- og austurlandi. Ljósmynd/Aðsend
Hjólreiðamennirnir ásamt kvikmyndatökuliðinu sem fylgdi þeim.
Hjólreiðamennirnir ásamt kvikmyndatökuliðinu sem fylgdi þeim. Ljósmynd/Aðsend
Erfiðustu aðstæðurnar eru þegar kuldi, bleyta og vindur sameinast.
Erfiðustu aðstæðurnar eru þegar kuldi, bleyta og vindur sameinast. Ljósmynd/Aðsend
Simon Thomsen er 28 ára gamall ljósmyndari.
Simon Thomsen er 28 ára gamall ljósmyndari. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert