„Málin snertu okkur djúpt“

Ársskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið birt.
Ársskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið birt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í ársskýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2017 að umfangsmikil og erfið sakamál hafi einkennt árið.

„Þessi mál kröfðust mikils af starfsmönnum, sem stóðust álagið, en málin snertu okkur djúpt,“ segir hún í ársskýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2017, og bætir við að þrjú manndráp hafi verið framin á árinu og að fjórir hafi látist í umferðarslysum í umdæminu.

Þar segir hún einnig að hið góða gengi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á árinu hafi valdið ófyrirséðum útgjöldum. Samt hafi tekist að lenda rekstrinum við skekkjumörk.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. mbl.is/Eggert

Verkefnum fjölgaði um 13%

Verkefnum á borði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 fjölgaði um ríflega 13% frá fyrra ári. Hegningarlagabrot voru um 9.500 talsins og sérrefsilagabrot nálægt 4.000. Skráð umferðarlagabrot voru um 40.000 og fjölgaði þeim mikið á milli ára.

Fíkniefnabrotum fjölgaði um fimmtung

Alls fjölgaði fíkniefnabrotum um fimmtung frá árinu á undan. Tilkynningum um líkamsárásir fjölgaði lítillega frá fyrra ári. Skráð ofbeldisbrot voru tæplega 1.300 talsins. Flest töldust minniháttar, eða um 1.000.

300 tilkynningar um kynferðisbrot

Embættinu bárust um 300 tilkynningar um kynferðisbrot sem er fjölgun frá árinu á undan. Næstum helmingur þeirra var nauðganir. Að meðaltali bárust um 60 tilkynningar um heimilisofbeldi á árinu.

Tilkynnt um 900 innbrot

Þjófnaðarbrot voru nálægt 4.200 á árinu. Alls var tilkynnt um hátt í 900 innbrot og fjölgaði þeim frá árinu á undan. Innbrotin voru þó færri en árið 2015. Að meðaltali var tilkynnt um tæplega 75 innbrot á mánuði.

500 óku gegn rauðu ljósi

Um 1.100 ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Um 350 ökumenn voru staðnir að því að tala í síma án handfrjáls búnaðar og rúmlega 500 ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi.

Um 250 leitarbeiðnir bárust vegna ungmenna. Um var að ræða 42 pilta og 41 stúlku.

Konum fjölgar hjá lögreglunni

Fram kemur í skýrslunni að haustið 2017 hafi 66 konur starfað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem er um fimmtungur af lögregluliðinu, eða 22%. Til samanburðar voru þær 48 árið 2014, eða 16%.

Góður árangur landsliðsins hafði áhrif

Halli á rekstri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 var um 106 milljónir króna. Einn þáttur í hallanum var góður árangur karlalandsliðsins í fótbolta. Um 100 lögreglumenn stóðu vaktina á leikjum liðsins og kostaði hver leikur embættið nokkrar milljónir króna. Sá kostnaður hefur ekki fengist bættur, að því er segir í skýrslunni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert