Heildarlaun að meðaltali 706 þúsund

Meðaltal heildarlauna í fyrra nam 706 þúsund krónum. Miðgildi launa …
Meðaltal heildarlauna í fyrra nam 706 þúsund krónum. Miðgildi launa var hins vegar 618 þúsund krónur. mbl.is/Hari

Í fyrra voru heildarlaun fullvinnandi launamanna hér á landi að meðaltali 706 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildarlauna var 618 þúsund krónur. Mismunur á upphæð meðallauna og miðgildis skýrist meðal annars af því að hæstu laun hækka meðaltalið talsvert.

Tæplega helmingur launamanna var með heildarlaun á bilinu 500 til 800 þúsund krónur. Þá voru tæplega 10% launamanna með heildarlaun undir 400 þúsundum króna og um 12% launamanna voru með heildarlaun yfir milljón krónur á mánuði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 730 þúsund krónur á mánuði árið 2017 hjá fullvinnandi starfsmönnum. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 774 þúsund krónur en 569 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum, þannig voru 65% starfsmanna sveitarfélaga með heildarlaun undir 600 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um rúmlega 30% ríkisstarfsmanna og um 45% starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Hægt er að skoða nánar heildarlaun eftir starfsstéttum og því hvort unnið sé á almennum markaði, hjá ríkinu eða sveitarfélögum, á vefsíðu Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert