Vilja fara í raunverulegt samráð

Spurningin er hvort rétt sé að framlengja núverandi fyrirkomulag eða …
Spurningin er hvort rétt sé að framlengja núverandi fyrirkomulag eða opna göturnar tímabundið fyrir umferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við viljum fara í raunverulegt samráð. Viðkvæmt mál eins og lokun gatna kallar á aukið samráð,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur, um tillögu skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar um að framlengja út árið það fyrirkomulag sem verið hefur í sumar á göngugötum í miðbænum, á meðan unnið er að deiliskipulagstillögu um umfang og fyrirkomulag göngugatna til framtíðar.

Borgarstjórn samþykkti án mótatkvæða í byrjun mánaðarins að hafa göngugöturnar allt árið. Umhverfis- og skipulagssviði var falið að undirbúa tillögur um það og sérstaklega tekið fram að útfærslur yrðu í samráði við notendur og hagsmunasamtök.

Afgreiðslu tillögunnar í skipulagsráði var frestað á fundi í gær en Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu, reiknar með að hún verði afgreidd á fundi ráðsins í næstu viku. Hún segir að skipulagsráðið standi frammi fyrir því að borgarstjórn hafi samþykkt að hafa göngugötur allt árið. Spurningin sé hvort rétt sé að framlengja núverandi fyrirkomulag á meðan unnið sé að útfærslu – eða að opna göturnar tímabundið fyrir umferð. „Það er búið að ákveða að þetta verði framtíðin. Mér finnst að skýrustu skilaboðin sem við getum sent séu að hafa göturnar sem göngugötur áfram og fá reynslu á þær en ekki taka upp eitthvert millibilsástand,“ segir Kristín Soffía í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert