Vaxandi rigning með snjókomu til fjalla

Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.

Gul viðvörun er í gildi á öllu landinu í dag, en vaxandi norðanátt verður í dag með rigningu fyrir norðan og austan, en slyddu eða snjókomu til fjalla.

Færð getur því orðið varasöm á fjallvegum þegar líður að kvöldi. Einnig má búast við mjög snörpum vindhviðum undir Vatnajökli í dag og ættu vegfarendur þar því að fara varlega, ekki hvað síst ef farartækin eru viðkvæm fyrir vindi.

Hitatölur verða bilinu 3 til 8 stig fyrir norðan, en allt að 13 stigum syðra þegar best lætur. 

„Á morgun hallast vindur eilítið til vesturs og kólnar enn frekar og er þá búist við slyddu sums staðar í byggð á norðanverðu landinu, en snjókomu eða skafrenningi á heiðum,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings. Það borgi sig því að fara varlega sé lagt í ferðalög á Vestfjörðum, Ströndum, Norður- og Austurlandi, einkum ef bílarnir eru ekki búnir til vetraraksturs.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert