Telja illa vegið að Klóa og kókómjólk

Sitt er hvað, Klói og Klói kókó porter.
Sitt er hvað, Klói og Klói kókó porter.

„Á þeim áratugum sem MS hefur notað köttinn KLÓA til auðkenningar á kókómjólk hefur fyrirtækið skapað auðkenninu markaðsfestu og áunnið því viðskiptavild. MS telur því einnig að notkun Borgar á auðkenninu feli í sér óréttmæta viðskiptahætti sem séu til þess fallnir að afla félaginu viðskipta með ótilhlýðilegum hætti á kostnað áralangrar markaðssetningar MS,“ segir í bréfi sem Mjólkursamsalan, MS, hefur sent Borg brugghúsi þar sem farið er fram á að brugghúsið láti af notkun á auðkenninu KLÓI í starfsemi sinni.

Borg brugghús, sem verið hefur í fararbroddi handverksbrugghúsa á Íslandi síðustu ár, sendi í sumar frá sér nýjan bjór sem bar nafnið KLÓI kókó porter. Var þar um að ræða súkkulaði-porter sem innihélt súkkulaðihismi frá Omnom og mæltist bjórinn vel fyrir. Hann var aðeins til sölu í takmarkaðan tíma á börum og veitingastöðum.

Forvarsmenn Mjólkursamsölunnar eru ósáttir við nafngift bjórsins eins og fram kemur í umræddu bréfi, sem ritað er af Huldu Árnadóttur, lögmanni hjá Lex lögmannsstofu. Í bréfinu er þess óskað að staðfest verði innan 15 daga frá dagsetningu þess að látið hafi verið af notkun auðkennisins KLÓI eða lausn fundin á málinu. „Verði ekki við þessu orðið á MS þann kost einan að leita réttar síns fyrir viðeigandi stjórnvöldum eða dómstólum landsins,“ segir í bréfinu.

„Notkun Borgar á auðkenninu KLÓI felur í sér augljósa tilvísun í kókómjólk og köttinn KLÓA, sem meðal annars má glöggt ráða af litanotkun á orðinu KLÓI en einkennislitir kattarins KLÓA eru bleikur og gulur,“ segir ennfremur. Hætta sé á ruglingi og þau hughrif gætu skapast hjá neytendum að tengsl séu á milli kókómjólkur og bjórtegundarinnar.

Árni Theodór Long, bruggmeistari hjá Borg, kveðst furða sig á upphlaupi MS. „Jú, við fengum einhvern svona póst. Ég var nú alveg búinn að gleyma þessu súkkulaðimjólkurdæmi – ég var líka alltaf meiri Kappa-maður. Svo er ég litblindur í þokkabót. Þetta er þá annars ekki í fyrsta skipti sem köttur er að þvælast í nágrannahúsum í Reykjavík. Klói sló allavega í gegn og seldist upp á örfáum dögum. Maður er annars mest að undirbúa jólabjórinn núna og lítið að spá í þetta. Við munum brugga fjórar tegundir fyrir þessi jól og ein þeirra gengur einmitt undir nafninu Skyr.is-gámur þessa dagana.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert