Flugfreyjur leituðu læknisaðstoðar eftir flug

Mál tengd vanlíðan hjá áhafnarmeðlimum í flugvélum koma upp hjá …
Mál tengd vanlíðan hjá áhafnarmeðlimum í flugvélum koma upp hjá Icelandair öðru hverju. mbl.is/Eggert

Fjórir starfsmenn Icelandair leituðu læknisaðstoðar eftir að þeir komu til landsins frá Edmonton í morgun. Starfsmennirnir voru í áhöfn um borð í vél flugfélagsins og fundu fyrir óþægindum, höfuðverk og þreytueinkenna eftir flugið. Frá þessu er greint á Vísi.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir í samtali við mbl.is að atvikið tengist loftgæði um borð í vélinni. „Við höfum fengið mál tengd vanlíðan í flugvélum hjá áhafnarmeðlimum í gegnum tíðina, öðru hverju,“ segir Jens og bendir á að svipuð tilvik komi upp hjá flestum flugfélögum þar sem loftgæði eru skert um borð í flugvélum almennt.

Vélin tekin tímabundið úr rekstri

Jens segi að atvikið í morgun hafi verið álitið það alvarlegt að ákveðið var að taka vélina úr rekstri tímabundið. „Þá skoðum við loftræstikerfið í vélinni og fljúgum ekki fyrr en búið er að skipta um síur og annað sem gæti stíflað.“ Atvikið var ekki tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa þar sem Icelandair telur að atvikið hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem til þarf.

Jens segir að atvikum sem þessum hafi ekki farið fjölgandi en komi oftar upp á sumrin en á veturna. Tengir hann það við tíðari flugferðir og aukinn fjölda fólks með minni reynslu í háloftunum. „En það hefur ekki verið neinn stígandi eða breytileiki í þessu,“

Mannlíf hefur fjallað um mál þriggja flugfreyja frá félaginu sem eru óvinnufærar eftir að hafa veikst í flugi í sumar. Jens staðfestir að flugfreyjurnar sem veiktust í dag hafi verið um borð í annarri vél. „Þetta hefur ekki verið bundið við einstakar vélar eða einstakar tegundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert