„Dettur einhverjum í hug að svarið sé „já“?

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í ræðustól Alþingis að 39 einstaklingar hafi dáið af völdum lyfjaeitrunar það sem af er þessu ári og spurði heilbrigðisráðherra að því hvort það sé ásættanlegt.

„Dettur einhverjum í hug að svarið sé „já“?“ svaraði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og benti á að það sé daglegt viðfangsefni embættisins að hafa áhyggjur af slíku.

„Ég vil biðja þingmanninn að gæta að því að þetta er grafalvarleg umræða og ekki til þess fallin að gera því skóna að fólk hafi ekki áhyggjur af stöðunni.“

Hún greindi frá því að verið sé að breyta umgjörð lyfjamála í landinu, auk þess sem reynt sé að draga úr læknadópi í umferð.

Inga sagði að flest fólkið sem hafi látist vegna lyfjaeitrunar hafi verið á biðlista eftir úrræðum hjá SÁÁ og spurði hvort ekki væri hægt að koma til móts við fólk sem bíður eftir úrræðum, þannig að það fái hjálp fyrr. 

Svandís sagði mikilægt að umræðan um þennan málaflokk sé ekki í upphrópunarstíl. Hún sagði yngsta hópinn, unglinga undir 18 ára aldri, þurfa sérstaka athygli varðandi meðferðarúrræði og nefndi að hún væri í samstarfi við félagsmálaráðherra vegna vandans.  

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert