Tökum við allt að 75 kvótaflóttamönnum

Fjöldi sýrlenskra flóttamanna hefst við í Líbanon vegna styrjaldarinnar í …
Fjöldi sýrlenskra flóttamanna hefst við í Líbanon vegna styrjaldarinnar í heimalandi þeirra. Flestir þeirra sem Ísland tekur við á næsta ári koma úr þeim hópi. AFP

Ríkisstjórnin tók í dag ákvörðun um að taka á móti allt að 75 kvótaflóttamönnum á næsta ári. Flestir þeirra eru Sýrlendingar sem nú eru staddir í Líbanon, en einnig verður tekið á móti hinsegin flóttamönnum og fjölskyldum þeirra, sem nú eru í Kenía. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þar segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar byggist á tillögum flóttamannanefndar, í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þetta verður í fjórða sinn sem stjórnvöld taka á móti sýrlensku flóttafólki, en fyrsti hópurinn kom hingað árið 2015. Þá verður þetta í þriðja sinn sem sérstaklega er tekið er á móti hinsegin flóttafólki.

„Sýrlendingar eru fjölmennastir í hópi fólks á flótta í heiminum sem er í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Sýrlenskir flóttamenn í Líbanon telja yfir milljón manns, búa þar við þröngan kost og staða þeirra hefur farið síversnandi. Þess má geta að um 55% sýrlenskra barna á flótta sem stödd eru í Líbanon hafa ekki aðgang að formlegri menntun,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Þá er staða hinsegin flóttafólks í Afríku sögð viðkvæm, vegna útbreiddra fordóma. Algengt er að flóttafólk og fjölskyldur þess verði fórnarlömb ofbeldis í flóttamannabúðum.

Flóttafólk sem kemur til landsins í boði stjórnvalda þarf ekki að ganga í gegnum það ferli að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þessi hópur er gjarnan kallaður kvótaflóttafólk.

Það sem af er þessu ári hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 52 kvótaflóttamönnum. Árið 2017 var fjöldi þeirra 47, en tekið var á móti 56 manns árið 2016, samkvæmt tölum á vef stjórnarráðsins.

Því hefur orðið töluverð aukning á undanförnum árum í þessum efnum, en á árunum 2010-2015 bauð íslenska ríkið alls 39 flóttamönnum að koma hingað í boði stjórnvalda.

Alls 19,9 milljónir á flótta

Á vef stjórnarráðsins segir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skilgreini nú alls 19,9 milljónir manna sem flóttafólk og áætlar stofnunin að af þeim séu 1,4 milljónir í brýnni þörf fyrir að komast í öruggt skjól. Þótt ríkjum sem taki á móti flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi fjölgað á liðnum áru, er samt tekið á móti færri einstaklingum en áður. Fækkunin milli áranna 2016 og 2017 nam 48% en árið 2017 tóku þjóðir heims við um 65.000 einstaklingum í samstarfi við Flóttamannastofnun SÞ.

„Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sent þjóðum heims ákall um að taka á móti fleira flóttafólki á næsta ári. Skipulögð móttaka flóttafólks bjargar ekki aðeins mannslífum og kemur í veg fyrir að einstaklingar leggi af stað í lífshættuleg ferðalög, heldur léttir það einnig á þeim ríkjum sem bera hvað þyngstar byrðar þegar kemur að málefnum flóttafólks. Um 85% alls flóttafólks í heiminum dvelja nú í grannríkjum landa þar sem stríðsátök eiga sér stað.

Næstu skref vegna áformaðrar móttöku flóttafólks hér á landi verða að upplýsa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Stofnunin leggur í framhaldi af því fram upplýsingar um þá einstaklinga sem hún telur koma til greina að bjóða til Íslands og verður unnið úr þeim upplýsingum hér á landi, meðal annars með aðkomu Útlendingastofnunar. Þegar fyrir liggur hverjum verður tekið á móti og þar með upplýsingar um samsetningu hópsins, aldur, fjölskyldusamsetningu og fleira tengt aðstæðum þeirra og þörfum, semur velferðarráðuneytið við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku fólksins,“ segir á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert