„Dónaskapur“ að fresta framkvæmdum

Bæjarráð Kópavogsbæjar hefur sent frá sér ályktun vegna frestunarinnar.
Bæjarráð Kópavogsbæjar hefur sent frá sér ályktun vegna frestunarinnar. mbl.is/Hjörtur

Bæjarráð Kópavogs hefur lýst yfir vonbrigðum með nýja samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2033 og segir frestun á framkvæmdum við Arnarnesveg til ársins 2024 vera dónaskap.

Fram kemur í ályktun bæjarráðs á bæjaráðsfundi í morgun að öllum ætti að vera ljóst að umferð um Vatnsendahverfið sé allt of mikil og að gatnamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendavegar séu löngu sprungin. Þar fara yfir um 12 þúsund bílar á sólarhring og verða miklar umferðartafir á háannatímum.

Einnig segir í ályktuninni að öryggi íbúa Kópavogs sé í hættu þar sem efri byggðir bæjarins séu ekki innan viðbragðstímans sem slökkvilið og sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu skulu fara eftir.

Hafa sýnt biðlund

„Í samgönguáætlun 2011-2022 lenti Arnarnesvegur milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar í enn einni frestuninni og var færður aftar á samgönguáætlun eða yfir á tímabil þrjú, árin 2019-2022. Nú er gengið enn lengra og veginum frestað til áranna 2024-2028. Kópavogsbúar hafa sýnt mikla biðlund og tóku síðustu frestun þegjandi í ljósi aðstæðna. Þessi nýjasta frestun er hins vegar ekkert annað en dónaskapur gagnvart íbúum Kópavogs og höfuðborgarsvæðisins alls,“ segir í ályktuninni.

Þar skorar bæjarráð á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Alþingi að breyta þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033 og virða fyrri áætlun um að lokið skuli við veginn á árunum 2019-2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert