Leiga ekki hækkuð án leyfis borgarinnar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að kvaðir verði á endursölu …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að kvaðir verði á endursölu íbúða á reitunum og að leiguverð verði ekki hækkað án leyfis borgarinnar. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Gert er ráð fyrir því að allt að 500 íbúðir sem sérstaklega eru hugsaðar fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur verði byggðar á sjö mismunandi reitum í Reykjavíkurborg á næstu árum, en borgin mun úthluta lóðum til framkvæmdaaðila á föstu verði, sem er 45.000 krónur á hvern fermetra ofanjarðar, auk gatnagerðargjalda, nema annars sé sérstaklega getið.

Reykjavíkurborg auglýsti fyrr á þessu ári ári eftir hugmyndum að samstarfsaðilum til að þróa og hanna hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á ákveðnum lóðum í borginni. Nú hafa innsendar hugmyndir verið metnar af matsnefnd hjá borginni og frumhugmyndirnar sem urðu hlutskarpastar voru kynntar á fundi í ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

Við matið voru aðilunum sextán sem sendu inn hugmyndir gefin stig á skalanum 0-100 og þrír veigamestu þættirnir vógu 20 stig hver, en þeir sneru að mati á endanlegu verði til íbúa, hvort sem um var að ræða íbúðir til sölu eða leigu, hönnun og arkitektúrs og þekkingu og reynslu teymisins sem kom að verkefninu. Einnig var horft til fjármögnunargetu bjóðanda, áætlaðs framkvæmdahraða, líftíma bygginga og sjálfbærni og kolefnisfótspors verkefnanna.

Reitirnir sem um ræðir eru í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfinu, við Sjómannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði, en deiliskipulag þessara svæða er mislangt á veg komið.

Sköpuðu hvata fyrir nýjar lausnir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í ávarpi sínu í upphafi fundar að þörf hefði verið fyrir verkefni sem þetta, til þess að tryggja að nýjum lausnum yrði beitt til þess að byggja hagkvæmt húsnæði fyrir þann hóp sem er að koma inn á íbúðamarkað.

„Greiningar okkar í tengslum við húsnæðiáætlunina sýndu, að þó að það væri mjög mikið verið að byggja af hálfu einkaaðila og við værum með þessar skýru félagslegu áherslur og samstarf við óhagnaðardrifin félög, þá var ákveðið gat á markaðnum. Þrátt fyrir mjög miklar umræður þá voru ekki að koma inn allar þessar nýju lausnir sem vísað var til að væru að koma erlendis, nýjar byggingaraðferðir, ódýrari íbúðir, sérstaklega fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur,“ sagði Dagur.

Borgarstjóri sagði að næstu skref í þessu verkefni yrðu að Reykjavíkurborg myndi hefja viðræður við teymin á bak við hugmyndirnar um lóðarvilyrði á reitunum sem um ræðir. Skilyrði verða sett um að teymin hafi aðgang að 20% eigin fé og að búið verði að semja við arkitekta úr hugmyndaleitinni.

Tryggt verður að forgangur verði í íbúðirnar fyrir fólk á aldrinum 18-40 ára og að Félagsbústaðir hafi kauprétt á 5% íbúða. Þá mun borgin setja kvaðir á endursölu íbúðanna, „allavega til 5-7 ára, hugsanlega lengur,“ sagði Dagur, auk þess sem að tryggt verði að um langtímaleigusamninga verði að ræða, þar sem leiguverð verði ekki hækkað nema með samþykki borgarinnar.

Horfa má á kynningarfundinn hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert