Ætlunin að styrkja réttarstöðu brotaþola

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti í kvöld fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Með frumvarpinu er málsmeðferð vegna nálgunarbanns einfölduð og réttarstaða brotaþola styrkt.

Breytingarnar eiga að ýta undir það að nálgunarbann sé nær því að vera tryggingarráðstöfun en þvingunarráðstöfun. Að frumvarpinu standa alls níu þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi.

Einnig á að létta á málsmeðferð en samkvæmt frumvarpinu á ekki að fara með mál fyrir dómstóla þar sem sakborningur er samþykkur. Eins og raunin er í dag þarf að fara með mál fyrir héraðsdóm þó sakborningur sé samþykkur. Með þessu er ætlunin að létta á málsferð, að hún verði ekki jafn þungær fyrir brotaþola, án þess að skerða rétt sakbornings. Auk þess að framkvæmd þeirra mála sem ekki er ágreinngur um er einfölduð og álagi létt af lögreglu.

Í greinagerð segir að frumvarpi þessu er málsmeðferð vegna nálgunarbanns einfölduð, án þess að breytt sé því efnislega mati sem fer fram varðandi það álitaefni hvort skilyrðum fyrir beitingu úrræðisins sé fullnægt.

Skilyrði nálgunarbanns eru þau að rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi framið refsivert brot, raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola. 

Enn fremur segir í greinagerðinni að ekki megi líta fram hjá því að röskun á friði sé nægjanlegt skilyrði til að fá nálgunarbanni beitt. 

Virðist oft vera að sett séu strangari skilyrði en lögin kveða á um þrátt fyrir tiltölulega lágan þröskuld ákvæðisins. Nálgunarbann á að bæta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis og annarra þolenda ofbeldis og ofsókna. Markmiðið er að vernda þann sem brotið er á og fyrirbyggja frekara ofbeldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert