Þykjast ekki mega gefa upplýsingar um réttindi og kjör

Þorbjörn segir hafa tekið langan tíma að fá upplýsingar hjá …
Þorbjörn segir hafa tekið langan tíma að fá upplýsingar hjá stóru fyrirtæki. mbl.is/Ómar

Borið hefur á því að fyrirtæki og verktakar beri fyrir sig nýja persónuverndarlöggjöf og vilji ekki láta af hendi upplýsingar um launakjör og réttindi starfsmanna þegar eftirlitsaðilar á vegum Samiðnar, sambandi iðnfélaga, hafa óskað eftir þeim á vinnustöðum. Um nýtt vandamál er að ræða sem orðið hefur vart við eftir að ný lög um persónuvernd tóku gildi í júlí á þessu ári. Þetta segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, í samtali við mbl.is

„Það hefur verið að koma upp, sem er umhugsunarvert, að fyrirtæki þykjast ekki mega gefa upplýsingar út af persónuverndarlöggjöfinni. Það er mjög skrýtið mál ef persónuverndarlögin eru hugsanlega að vernda þá sem brjóta lög og reglur. Það er skrýtin nálgun en er raunveruleg,“ segir Þorbjörn.

Tók margar vikur og bréfaskrif að fá upplýsingar

Í september á síðasta ári hóf Samiðn skipulagt átak sem felst í að fara í heimsóknir á vinnustaði og kalla eftir ítarlegri upplýsingum en áður hafði verið gert. Fram að því hafði vinnustaðaeftirlitið aðallega falist í að kanna skráningar, en með átakinu var tekið skref til viðbótar og farið að óska eftir upplýsingum um launakjör og réttindi starfsmanna hjá stjórnendum.

Þorbjörn segir líklegt að láta þurfi á þetta reyna. „Við vorum í samskiptum við mjög stórt fyrirtæki og það endaði með því eftir mikil bréfaskipti á milli lögfræðinga að þeir opnuðu að megninu til upplýsingarnar sem við vorum að biðja um. Svo er komið upp mál í tengslum við annað fyrirtæki sem segist ekki geta gefið upplýsingar um réttindi manna. Það sé verndað með persónuverndarlöggjöfinni. Þetta er nýtt og þarf að fást niðurstaða í.“

Þorbjörn segir þetta þó ekki endilega þurfa að vera vísbendingu um að fyrirtækin hafi eitthvað að fela. Það hafi allavega ekki verið þannig í fyrra dæminu sem hann nefnir. „Það er ekki hægt að segja það, loksins þegar þetta kom. En það tók margar vikur og var mikil vinna að ná þessu.“

Nýju lögin eiga ekki að hafa áhrif á upplýsingagjöf

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir nýja persónuverndarlöggjöf ekki eiga að hafa áhrif á þessa upplýsingagjöf, enda sé það hlutverk stéttarfélaga að sinna ákveðnu eftirlitshlutverki á vinnumarkaði.

„Það gefur auga leið að eitt af því er að fá vitneskju um hvort farið er að gildandi kjarasamningum fyrir aðildarfélaga. Ný persónuverndarlöggjöf á ekki að hagga við því. Ný löggjöf snýst umfram annað um aukið öryggi í vinnslu persónuupplýsinga og fræðslu um notkun þeirra, en það á ekki að girða fyrir að upplýsingagjöf sé stöðvuð til þeirra sem fullnægjandi heimildir hafa.“

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir ekkert í nýju löggjöfinni eiga …
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir ekkert í nýju löggjöfinni eiga að hindra upplýsingagjöf til samiðnar. mbl.is/Eggert

Helga bendir á að ýmis konar misskilnings hafi gætt varðandi nýju löggjöfina, en segir þó eðlilegt að fólk fari varlega. „Það er tekið á því með sterkari hætti í nýju löggjöfinni ef látnar eru af hendi upplýsingar án heimildar. En að sama skapi, ef þetta eru sannarlega aðilar á vegum landssambands stéttarfélaga, þá er það meðal hlutverka stéttarfélaga að passa upp á greitt sé samkvæmt kjarasamningum og til þess verða þeir að fá upplýsingar.“

Ný löggjöf á ekki að breyta því. „Hún á að auka réttindi einstaklinga ekki að búa til umhverfi þar sem hægt er að komast hjá því að borga samkvæmt kjarasamningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert