Kind birtist á heilsugæslunni

Kindurnar að bíða eftir afgreiðslu á heilsugæslunni.
Kindurnar að bíða eftir afgreiðslu á heilsugæslunni. Ljósmynd/Guðrún Margrét Björnsdóttir

Kind með tvö lömb fór inn á heilsugæsluna á Eskifirði í gær en kindin hefur reynst smölum á Eskifirði erfið í haust. Sævar Guðjónsson, íbúi á Eskifirði, birti stutt myndskeið þar sem dýrin koma inn á heilsugæsluna.

„Þessi kind er búin að vera þarna fyrir ofan í fjallinu í allt haust og það hefur ekki verið nokkur leið að ná henni,“ segir Sævar. Hún hafi meðal annars sent einn smala á heilsugæsluna en hann var með snúinn ökkla eftir að hafa reynt að ná henni.

„Það er spurning hvort hún hafi verið að athuga með hann,“ segir Sævar og hlær.

Nokkrir menn fóru í gær og reyndu að ná kindinni, sem rauk þá niður í bæ. „Ég átti leið hjá og var akkúrat staddur þarna þegar kindin og lömbin voru við heilsugæsluna. Hurðin opnaðist sjálfkrafa og þau fóru inn.“

Sævar segir að smalarnir hafi náð kindinni eftir heimsókn hennar á heilsugæsluna. „Hún fór út aftur og þeir náðu henni í garði rétt hjá eftir mikinn eltingarleik.

mbl.is

Bloggað um fréttina