Undir áhrifum fíkniefna í banaslysi

Bílar á ferð um Reykjanesbraut.
Bílar á ferð um Reykjanesbraut. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður sem lést í hörðum árekstri tveggja bifreiða á Reykjanesbraut í október fyrir um tveimur árum var ekki í öryggisbelti og var undir áhrifum fíkniefna þegar slysið varð.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem var birt í dag.

Maðurinn var einn í Toyota Corolla-fólksbifreið sinni þegar henni var sveigt yfir á rangan vegarhelming við Rósaselstorg, beint framan á VW-sendibifreið sem kom úr gagnstæðri átt án þess að ökumaður sendibifreiðarinnar gæti brugðist við. Einn farþegi var í þeirri bifreið.

VW-bifreiðin kastaðist út fyrir veginn sunnan megin og Toyota-bifreiðin norðan megin og lenti á ljósastaur. Ökumaður Toyota-bifreiðarinnar sem lést kastaðist fram á stýrið og lést af völdum fjöláverka.

Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var spenntur í öryggisbelti en hlaut alvarlegan brjóstholsáverka. Farþeginn í bifreiðinni var einnig í öryggisbelti. Hann missti meðvitund í nokkrar mínútur og hlaut beltisáverka.

Hámarkshraði var 90 km/klst. þegar slysið átti sér stað en hefur nú verið lækkaður í 70 km/klst.

Ekki í notkunarhæfu ástandi

Bíltækniskoðun á Toyota-bifreiðinni leiddi í ljós að hemlabúnaður að framan var ekki í lagi fyrir slysið. Þrjár mismunandi tegundir hjólbarða voru undir bifreiðinni og voru hjólbarðarnir allir gamlir og slitnir. Í ljósi ástands hemla var bifreiðin ekki í notkunarhæfu ástandi fyrir slysið, að því er kemur fram í skýrslunni. Engar vísbendingar fundust um að útsýn ökumanns hefði verið skert í aðdraganda slyssins.

Niðurstaða hraðaútreiknings sérfræðings bendir til að hraði Toyota-bifreiðarinnar hafi verið á bilinu 99 til 143 km/klst. Líklegasti hraði var metinn um 123 km/klst. Hraði VW-bifreiðarinnar var líklega á bilinu 60 – 80 km/klst. rétt fyrir slysið. Ekkert kom fram í rannsókninni á VW-bifreiðinni sem skýrt gæti orsök slyssins

Niðurstöður áfengis- og lyfjarannsóknar sýndu að ökumaður Toyota-bifreiðarinnar var undir miklum áhrifum nokkurra ólöglegra fíkniefna. Niðurstöður áfengis- og lyfjarannsóknar á ökumanni VW-bifreiðarinnar leiddu í ljós að í blóði hans mældist ólöglegt fíkniefni.

Að mati rannsóknarnefndar samgönguslysa er brýnt að aðgreina akstursáttir á Reykjanesbraut að fullu til að forða því að sambærileg slys verði. Leggur nefndin til við veghaldara að aðgreina akstursáttir á Reykjanesbraut.

Einnig telur nefndin brýnt að rannsaka hvaða úrræði hafa gefist vel í öðrum löndum og leitt geta til breyttrar hegðunar ökumanna sem aka undir áhrifum áfengis og/eða lyfja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert