Hafþór fær 12 mánaða dóm fyrir peningaþvætti

Hafþór Logi Hlynsson (t.v.) ásamt Sindra Þór Stefánssyni (t.h.), sem …
Hafþór Logi Hlynsson (t.v.) ásamt Sindra Þór Stefánssyni (t.h.), sem ákærður er í gagnaversmálinu svokallaða og strauk frá Sogni fyrr á þessu ári. Hafþór birti þessa mynd við það tækifæri og sagðist styðja Sindra. Instagram/ Haffilogi

Hafþór Logi Hlynsson var á föstudaginn dæmdur í 12 mánaða fangelsi í héraðsdómi fyrir peningaþvætti og þá var Tesla model 2 og reiðufé upp á 2,5 milljónir gert upptækt. Félagi Hafþórs var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hlutdeild í peningaþvættinu með því að hafa tekið við fjármunum frá Hafþóri sem hann átti að vita að væru fengnir með refsiverðum brotum. Þetta er tólfti refsidómurinn sem Hafþór hefur hlotið síðan í desember árið 2003.

Samkvæmt dóminum aflaði Hafþór sér samtals yfir 8 milljóna með refsiverðum hætti. Var hann handtekinn í maí í fyrra og var í framhaldinu gerð leit á heimili hans. Fann lögreglan þá 1,8 milljónir undir rúmdýnu, en Hafþór sagðist hafa tekið þá upphæð úr banka því hann skuldaði bankanum. Þá fundust einnig talsverðir fjármunir í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu á heimili hans sem og á Hafþóri.

Hafþór hafði einnig stundað innflutning á Tesla model 2-bifreið frá Litháen. Hafði Hafþór fengið greiðslu frá tryggingafélagi fyrir Audi-bifreið sem hafði skemmst auk þess sem hann sagðist hafa fengið lán. Lét hann félaga sinn, sem einnig var ákærður og dæmdur í málinu, fá upphæðina og skipti hann fénu í evrur og var greitt fyrir bifreiðina með reiðufé í Litháen.

Stundar lánastarfsemi og bílabrask

Við yfirheyrslu vildi Hafþór ekki tjá sig um fjárhagsstöðu sína en kvaðst engar eignir eiga. Hann hefði aðeins um 250 þúsund krónur í öryrkjabætur á mánuði og þá hefði hann stundað bílabrask. Neitaði hann hins vegar að svara því hvernig þeir bílar væru skráðir. Þá kvaðst hann lána fólki peninga en þegar hann var spurður hvernig hann gæti það kaus hann að tjá sig ekki.

Félagi Hafþórs sagði við skýrslutöku að hann væri eigandi þeirra fjármuna sem fundust undir rúmdýnunni og að hann hafi aflað þeirra með svartri vinnu. Þeir hafa þekkst í nokkurn tíma og voru meðal annars ákærðir saman í fíkniefnainnflutningsmáli. Þar var Hafþór hins vegar aðeins fundinn sekur en ekki félaginn.

Býr í 320 fermetra húsi en með litlar tekjur

Á heimili Hafþórs fundust auk fjármuna sterar og fíkniefni. Þá benti saksóknari á að fjölmargar millifærslur inn á reikning Hafþórs væru frá mönnum sem væru þekktir af afbrotum og dæmdir fyrir slík. Sagði Hafþór það vera vini sína.

Tesla bifreiðin sem keypt var í Litháen var skráð á einkahlutafélag, en Hafþór sagðist hafa fjármagnað kaupin. Einkahlutafélagið var í eigu fósturföður Hafþórs, en hann neitaði að tjá sig um málið fyrir dómi.

Fyrir dómi var Hafþóri bent á að hann byggi í 320 fermetra húsi og hefði ætlað að kaupa sér dýran bíl. Sagði Hafþór fyrir dómi að hugmyndin með bílakaupunum hefði verið að selja hann aftur og hagnast á því. Byggði ákæruvaldið meðal annars mál sitt á því að Hafþór hafi verið eigandi þeirra fjármuna sem voru haldlagðir voru, en samkvæmt skattframtali hans árið 2015 var hann aðeins með um 1,2 milljónir í tekjur. Það væru einu skráðu tekjur hans, auk svipaðrar upphæðar sambýliskonu hans. Engar eignir voru skráðar á framtalið, en skuldir voru umfram árstekjur þeirra. Ári seinna voru einu tekjur hans 2,6 milljónir frá Tryggingastofnun.

Áður hlotið 11 dóma á 15 árum

Eins og fyrr greinir hafði Hafþór áður hlotið ellefu refsidóma á síðustu 15 árum. Hefur hann meðal annars verið dæmdur fyrir þjófnaðarbrot, fjársvik, fíkniefnalagabrot, valdstjórnarbrot og fíkniefnainnflutning. Hlaut hann síðast dóm upp á 6 mánuði í janúar og tveggja ára dóm í maí í fyrra.

Héraðsdómur kemst með vísan til brotaferils og fjárhag Hafþórs að fjármunirnir séu illa fengnir. „Þegar allt framangreint er virt, það er fjárhagur ákærða Hafþórs Loga og brotaferill hans, er fallist á með ákæruvaldinu að næg sönnun sé fram komin fyrir því að ákærði hafi aflað sér peninga og bifreiða með peningaþvætti eins og í ákæru greinir. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis,“ segir í dóminum.

Þá er félagi Hafþórs einnig fundinn sekur um að hafa tekið við peningum, sem hann átti að vita að væru illa fengnir, og skipt þeim yfir í evrur svo hægt væri að kaupa umrædda Tesla bifreið.

Er fallist á að gera upptækar 2,5 milljónir sem fundust á heimili Hafþórs og Tesla bifreiðin, en hún var keypt í Litháen í fyrra fyrir 46 þúsund evrur, sem þá voru um 5,6 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert