Konum síður treyst til stjórnunarstarfa

Mestur munur er á viðhorfum karla og kvenna í Þýskalandi, …
Mestur munur er á viðhorfum karla og kvenna í Þýskalandi, en minnstur í Bretlandi. AFP

Konur eru líklegri en karlar til að líta svo á að konur séu jafnhæfar körlum til að sinna stjórnunar- og leiðtogastörfum. Viðhorf karla og kvenna til þessa eru svipuðust í Bretlandi en mestu munar á viðhorfum karla og kvenna í Þýskalandi, af þeim löndum sem Reykjavik Index for Leadership nær til.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var meðal hinna svkölluðu G7-landa, Bretlands, Frakklands, Kanada, Bandaríkjanna, Japan, Þýskalands og Ítalíu, en niðurstöður Reykjavik Index for Leadership voru kynntar á Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu sem sett var í morgun.

Niðurstöður eru kynntar á skalanum 0 til 100, en 100 stig myndu þýða að karlar og konur þættu jafnhæf til stjórnunarstarfa á öllum sviðum samfélagsins. Heildarstigafjöldi yfir öll G7-löndin þetta árið er 66.

Sjötíu prósent kvenna í Þýskalandi telja konur jafnhæfar körlum til stjórnunarstarfa, á móti aðeins 61% karla. Innan við fjórðungi þýskra karla myndi líða vel með að hafa konu sem yfirmann ríkisstjórnar sinnar eða framkvæmdastjóra stórfyrirtækis. Í Bretlandi eru konur og karlar hins vegar nær því að vera sammála. 78% kvenna þykir karlar og konur jafnhæf til að sinna stjórnunarstöðum og 75% karla.

Niðurstöðurnar voru kynntar á Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í dag.
Niðurstöðurnar voru kynntar á Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert

Konur í Japan voru ólíklegastar kvenna í G7-ríkjunum til þess að þykja konur jafnhæfar körlum og japanskir karlmenn ólíklegastir allra.

Þegar litið er til sérstakra atvinnugreina er líklegast að fólki þyki konur jafnhæfar körlum til þess að gegna æðstu stjórnunarstöðu í fyrirtækjum í fjölmiðla- og skemmtanabransanum, eða 80%. Innan nokkurra atvinnugreina í tækni- og vísindageiranum var hlutfall þeirra sem taldi konur jafnhæfar körlum til að stjórna yfir 75%. Þar ber helst að nefna náttúruvísindi, lyfja- og læknarannsókna og stjórnmálafræða.

Staðalímyndir virðast hins vegar enn lifa góðu lífi þegar kemur að umönnun barna, þar sem flestir telja konur hæfari til þess að sinna stjórnunarstöðum. Frakkar skera sig þó nokkuð úr þar sem 55% telja konur og karla jafnhæf til stjórnunar, til samanburðar við 46% allra G7-ríkjanna.

Þá telja 47% fólks í G7-ríkjunum að konur séu hæfari en karlar til að gegna stjórnunarstörfum í tísku- og snyrtibransanum. 70% Breta telja konur og karla jafnhæf til að sinna stjórnun innan lögreglu, en aðeins 41% Japana og 47% Ítala.

Allt í allt eru Bretar líklegastir til að þykja karlar og konur jafnhæf, en þar á eftir koma Frakkland, Kanada og Bandaríkin. Ítalir eru ólíklegastir til þess að bera jafnt traust til kynjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka