Vilja ekki slá skjaldborg um brotamenn

Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra á fundinum …
Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

Tilgangur með nýju lagafrumvarpi um birtingu dóma og úrskurða dómstóla er ekki ætlað að slá skjaldborg um brotamenn heldur vernda hagsmuni annarra, einkum brotaþola. Þetta sagði Benedikt Bogason, hæstaréttardómari og formaður stjórnar dómstólasýslunnar, á málþingi sem var haldið í Nauthóli í dag á vegum dómstólasýslunnar.

Verði frum­varpið að lög­um verða dóm­ar og úr­sk­urðir héraðsdóm­stóla sem varða viðkvæm per­sónu­leg mál­efni ekki leng­ur birt­ir op­in­ber­lega. Sömu­leiðis er gert ráð fyr­ir að aðeins verði birtur útdráttur, eða svokölluð reifun, úr dóm­um Lands­rétt­ar og Hæsta­rétt­ar í slík­um mál­um. Einnig er lögð til nafn­leynd í öll­um til­fell­um við birt­ingu dóma í saka­mál­um um þá sem þar koma við sögu.

Á málþinginu nefndi Benedikt sem dæmi að í dómstólum úti á landi séu eitt til tvö kynferðisbrotamál á ári hverju. Þar koma ýmsir sem eru aðilar að málinu fyrir dóm og fyrr en varir veit allt samfélagið að verið er að reka kynferðisbrotamál fyrir dómi þar sem ákveðinn brotaþoli kemur við sögu. „Gefum okkur að dómurinn sé birtur með nafnleynd. Það mun ekki þýða neitt í þessu samfélagi,“ sagði Benedikt. Hægt væri að lesa dóminn, nákvæmar lýsingar á brotinu og högum brotaþola í kjölfarið. „Þess vegna er lagt til að birta ekki þessa dóma.“

„Vita allir allt um alla“

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, minntist einnig á dóma um kynferðisbroti úti á landi og sagði nafnleynd í sumum tilfellum vera ófullnægjandi í dómum. „Það vita allir allt um alla á þessum stöðum,“ sagði hún og benti á að á Norðurlöndunum væru dómarnir reifaðir. Hún velti því upp hvort Íslendingar væru orðnir of góðu vanir. Þeir séu mataðir af ítarlegum upplýsingum, sem þurfi í rauninni ekki að koma fram í dómum.

Berglind Svavarsdóttir.
Berglind Svavarsdóttir. Ljósmynd/Landsbankinn

Vill málamiðlun andstæðra sjónarmiða

Sigurður Tómas Magnússon, landsréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, var næstur á mælendaskrá. „Það er verið að reyna að takast á við þessa skepnu sem er netið, sem gleymir engu,“ sagði hann um frumvarpið. „Við megum ekki alltaf líta á nýja tækni sem alveg sjálfsagðan hlut. Jafnvel þó að við getum eitthvað er ekki sjálfsagt að við gerum það. Það þarf að finna málamiðlun á milli andstæðra sjónarmiða.“

Hann benti á sjónarmið sem mæla með sem minnstum höftum á birtingu dóma. Að almenningur eigi rétt á því að fá fréttir af mikilvægum dómsmálum og ekki megi heldur gleyma fræðimönnum, að þeir hafi greiðan aðgang að öllum úrlausnum. Sjónarmið fjölmiðlamanna væri að dómar gætu misst gildi sitt ef ekki er vitað hverjir aðilar málsins eru og að hluti af fréttnæmi dómanna sé að vita hverjir eiga hlut að máli. „Við megum ekki horfa fram hjá þessu og telja að þetta skipti engu máli.“ Sigurður Tómas sagði einnig að slys hefðu orðið við birtingu dóma og með frumvarpinu minnki líkurnar á þeim.

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Vantraust í garð dómstóla gæti aukist

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, sagði að svarið við gagnrýni á dómstóla í samfélaginu, sem hafi aukist vegna meðferðar þeirra á kynferðisbrotamálum, sé að auka gagnsæi. „Ég óttast að ef við drögum úr þeim upplýsingum sem almenningi eru veittar í þessum málaflokkum sáum við frekari fræjum vantrausts í garð dómstólanna,“ sagði hún og nefndi að reifun gæti orðið hluti af dómum. Fela mætti dómurum að semja inngang að dómum sínum sem sé ætlaður til birtingar.

Einnig sagði hún of langt gengið með því að falla frá því að birta nöfn dómfelldra í sakamálum og taldi ekki sömu persónuverndarsjónarmið eiga við þá sem hljóta slíka dóma. „Ég tel að nöfn sakamanna eigi erindi við almenning,“ sagði hún.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert

Í máli Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, kom fram að það þurfi að vera skýrt hver eigi að birta dóma og hvaða ábyrgð hvíli á þeim. Alltaf sér spurning hvernig hægt sé að útfæra þessi mál „í okkar litla samfélagi þannig að vel má við una“.  Hún sagði nákvæmar lýsingar í dómum, til dæmis í kynferðisbrotamálum, þar sem einstaklingar séu mögulega berskjaldaðir, ekki eiga við.

Birting gæsluvarðhaldsúrskurða óþörf

Í umræðum í kjölfarið steig Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari fram og benti á hvort ekki mætti sleppa því að minnast á í dómum hvaða héraðsdómstóll er undir. Einnig hafði hún áhyggjur af því að það gæti verið erfitt fyrir ákæruvaldið að finna upplýsingar vegna vinnu sinnar ef nýju lögin taka gildi. Jafnframt sagði hún það lengi hafa verið þyrni í augum ákæruvaldsins að allir rannsóknarúrskurðir séu birtir. Réttarspjöll hafi ítrekað orðið vegna þess. Rannsóknarhagsmunir hljóti að eiga að ganga þar framar og engin þörf sé til dæmis á því að birta gæsluvarðhaldsúrskurði. 

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. kjörin á Alþingi saksóknari vegna ákæru …
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. kjörin á Alþingi saksóknari vegna ákæru á hendur Geirs H. Haarde

Fáar umsóknir í samráðsgátt

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra steig einnig í pontu í upphafi málþingsins. Hún sagði að taka þurfi tillit til allra sjónarmiða í frumvarpinu og að fjölmiðlum finnist jafnvel vegið að sínu hlutverki. Sömuleiðis sagði hún það hafa komið sér á óvart hversu fáar umsóknir komu fram í samráðsgáttinni vegna frumvarpsins. „Trúlega verður það þannig á endanum að það sé erfitt að ná allsherjarsátt um breytingu á þessu fyrirkomulagi en til lengri tíma litið sættist menn við þá niðurstöðu sem verður ofan á í þessum efnum,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert