Þurfti að læra að tjá líðan sína

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Eggert Jóhannesson

Þriðjudagsmorgunn í Vesturbænum, við þurfum að finna kaffihús sem er opnað snemma því Aron Einar Gunnarsson er önnum kafinn og þarf núna sem endranær að púsla hvert korter í lífi sínu. Að lokum er húðflúraða Akureyringnum stefnt á kaffistofu Vesturbæinga sem hann hefur aldrei séð áður en hann kann vel við sig, segir rólegheit eiga vel við sig.

Fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu er í stuttu stoppi á landinu vegna útgáfu nýrrar bókar um líf hans; Aron, sagan mín. Einar Lövdahl skrásetti söguna og blaðamaður hefur nýklárað að lesa síðustu blaðsíðu bókarinnar þegar við setjumst niður. Án þess að ætla að gerst ritdómari bókarinnar er eitt sem undirrituð vill sérstaklega nefna en það kom á óvart við lesturinn hversu hreinskilinn Aron Einar er um menn og málefni og dregur ekki af sér, sérstaklega í ljósi þess að hann er ekki kominn á þann stað í lífinu að hafa lagt skóna á hilluna. Yfirleitt losnar ekki almennilega um málbeinið á íþróttamönnum fyrr en ferilinn er að baki og engu er að tapa.

Varstu aldrei hræddur við að opna þig svona mikið?

„Það voru vissulega atriði sem var erfiðara að rifja upp en önnur þegar við Einar vorum að fara í gegnum þetta. En ég sagði strax á fyrsta fundinum með honum að fyrst ég væri að þessu vildi ég gera það almennilega í stað þess að vera á tánum, að passa mig að segja ekki þetta og hitt. Mér fannst að ég yrði að vera hreinn og beinn.

Bæði er þetta mín persónulega saga en einnig saga fyrir allar næstu kynslóðir íþróttamanna og mér fannst ég eiginlega ábyrgur sem fyrirliði landsliðsins að segja frá því hvað við þurftum að ganga í gegnum sem landslið til að ná þessum árangri og hvað ég persónulega þurfti að gera til að ná þetta langt.

Ég er satt best að segja afar spenntur og stressaður um leið hvað fólki finnst um bókina því ég hef ekki opnað mig svona áður og sá harði og skeggjaði Aron sem ég hef svolítið þurft að búa til fyrir fótboltann og fólk er vant að sjá á vellinum og í íþróttaviðtölunum er svolítið annar Aron en tilfinningaveran og fjölskyldumanneskjan sem ég er. Fyrir utan það að í slíkum viðtölum má maður eiginlega sjaldnast segja sannleikann. Ekki gefa upp of mikið fyrir leik til að leka ekki strategíu í hitt liðið og reyna að vera ekki að básúna út eftir leik ef það er einhver gremja til staðar eða annað sem á bara heima innan liðsins.“

Sálfræðingur á FaceTime

Eitt af því sem vekur athygli í bókinni er samanburður Arons á umræðu um andlega líðan íþróttamanna ytra og svo hér heima. Aron segir að umræðan sé talsvert lengra komin hér heima þar sem íþróttamenn eins og Ingólfur Sigurðsson og fleiri hafa greint frá glímu sinni við kvíða og vanlíðan.

„Þessi fótboltaheimur sem ég lifi og hrærist í er þannig að þú átt ekki að sýna tilfinningar. Þú átt bara að vera klár í næsta leik, aldrei að vera langt niðri, og þessi heimur er mjög harður hvað þetta varðar. Mér finnst svo frábært hvað þetta er að breytast hér heima, umræðan er að taka nýjan snúning og opnast fyrir þessu. Ég held að þetta sé stærra vandamál en fólk geri sér grein fyrir.

Sjálfur hef ég ekki upplifað alvarlegan kvíða eða kvíðaröskun en ég fór að fara til sálfræðings fyrir nokkrum árum því mér fannst ég þurfa á því að halda til að bæta samskipti mín við fólkið í kringum mig og læra að tala um tilfinningar mínar. Ég er úr þannig fjölskyldu að þrátt fyrir að það hafi verið mikið húllumhæ þá var ekkert mikið verið að ræða eða tjá sig um tilfinningaleg mál. Svo kynntist ég eiginkonu minni, Kristbjörgu, og fjölskyldu hennar en þar á bæ er hér um bil allt tekið fyrir og rætt og krufið og Kristbjörg fór að fá mig til að stíga út fyrir þægindarammann.  

Ég sá þá að ég þyrfti að spreyta mig, leita mér hjálpar til að ná að tjá mig um litlu hlutina sem angra mann því ef maður ræðir þá ekki þá dregur það mann smám saman niður. Það hefur hjálpað mér mikið í fótboltanum og í fjölskyldulífinu að kunna betur að tjá mig, við til dæmis Kristbjörgu og Ólíver eldri son minn, bara það að spjalla við hann og spyrja hvernig hann hafi það, heyra hvernig Kristbjörg hafi haft það yfir daginn, ég hef slípast til. Seinna meir, þegar Tristan, yngri sonur minn, hefur aldur til er ég fær um að spjalla á sama hátt við hann.

Áður var það þannig að ég spurði fólk ekki um líðan þess, það var ekki það að ég hefði ekki áhuga, ég var bara ekki að hugsa lengra, að það væri gott og ofhugsaði hlutina oft innra með mér í stað þess að bara færa þá í orð og ræða þá. Ég er miklu næmari í dag fyrir líðan annarra, skynja betur þegar aðrir eru niðurdregnir og er ekki eins lokaður með að ræða það.“

Aron er hjá íslenskum sálfræðingi sem hann talar við um það bil einu sinni í mánuði í gegnum FaceTime. Hann nefnir sem dæmi um hvernig sálfræðingurinn hafi aðstoðað hann við að sjá hlutina í nýju ljósi, þegar hann var að fást við meiðsl í byrjun þessa tímabils hjá Cardiff.

„Mér leið hálfpartinn eins og ég hefði svikið þjálfarann sem hafði barist fyrir að ég fengi nýjan samning og svo var ég bara meiddur. Ég fór hálfpartinn að fela mig fyrir honum, varð fjarlægur og forðaðist hann á æfingasvæðinu. Sálfræðingurinn sagði mér einfaldlega að hætta að fela mig og fara bara og ræða við þjálfarann hvernig mér liði, sem og ég gerði, viðurkenndi að ég hefði forðast að mæta honum því mér liði illa yfir þessu. Hann þakkaði mér einfaldlega fyrir og sagðist hafa fundið það á mér að ég væri að fjarlægjast. Þetta samtal breytti öllu, ég varð aftur sama persónan í kringum strákana í búningsklefanum, fór að grínast aftur og slaka á. Þetta er gott dæmi um að ofhugsa ekki hlutina heldur létta bara á sér.“

Orðin sem sitja eftir

Aron gerir stærstu köflunum í sögu landsliðsins vel skil í bókinni, bæði sumrinu á EM í Frakklandi og HM í sumar. Þrátt fyrir að nær öll þjóðin viti sögu Íslands á þessum mótum er talsvert öðruvísi að sjá þá út frá sjónarhóli fyrirliðans. Það skín í gegn í frásögninni hvað þjóðin hefur haft mikil áhrif á stemninguna í liðinu og hve mikla orku Aron fær frá stuðningsfólkinu, það er mjög einlægt af hans hálfu í frásögninni og ekki hægt að spyrða það saman við neinar tuggur eða klisjur. Fólkið og skilaboðin sem hann hefur fengið frá því úti á götu eða í skilaboðum hefur raunverulega haft áhrif á hann og hvatt hann. Af mörgu er Aroni sérstaklega minnisstætt þegar eldri maður stoppaði hann í World Class í Laugum og spurði hann hvort hann væri ekki Aron Einar. Aron jánkaði því og þá sagði maðurinn:

„Ég hef nú aldrei haft áhuga á ykkur, sparkandi boltanum um einhvern völl í alltof þröngum stuttbuxum og flúraðir út um allt, en það sem ég hef áhuga á er hversu flottir þið eruð utan vallar, hvernig þið talið um náungann og hversu góðar fyrirmyndir þið eruð.“ Þess má geta að Aron reyndi að fela tattúin undir þessum orðum mannsins sem bætti við: „Þú sérð það að þetta er augnablikið ykkar. Þið skuluð nýta ykkur það – brosið og þá sameinast þjóðin loksins aftur.“

„Ég held að undirmeðvitundin taki þessi skilaboð svolítið djúpt inn og þetta litla atvik hafði mikil áhrif, bara hversu einlægt og gott spjall þetta var og ég hef oft síðar hugsað til þessara orða.“

Aron hefur líka sótt stuðning til fólks að fyrra bragði. Fyrir mikilvægan leik hringdi hann í Ólaf Stefánsson handboltakappa, hafði þá verið með númerið hans í heilt ár í símanum og hann kynnti sig. Helst hafði hann áhuga á að fá að heyra eitthvað um margfrægar peppræður Ólafs fyrir leiki og hvort hann gæti ekki nýtt sér ráð frá landsliðsfyrirliðanum fyrrverandi. Ólafur var hálfhissa á að Aron skyldi vera að biðja sig um ráð – sagði honum að þeir væru bara frábærir og að gera allt hárrétt – til hvers að breyta til? Aron ræðir í bókinni hvað þetta hjálpaði honum mikið.

Viðtalið birtist í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert