„Þetta er svo galið“

Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður.
Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á ekki 1.100 milljónir fyrir fátækasta fólkið í landinu en hún á 1.500 milljónir til að hella í gjaldþrota ohf. sem vitað hefur verið mjög lengi að stefndi í gjaldþrot út af slæmum rekstri,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag þar sem hann vísaði til Íslandspóst.

Þorsteinn sagði að allt frá árinu 2011 hafi verið varað við rekstrarstöðu fyrirtækisins. „En á meðan fátækasta fólk á Íslandi þarf enn um hríð að bíða eftir réttlæti af hálfu þessarar ríkisstjórnar finna menn 1.500 milljónir sem á að hella, við 3. umræðu fjárlaga, í Íslandspóst ohf. án nokkurrar athugunar eða nokkurrar kröfu um að gerð verði úttekt á þessum rekstri. Það er engin krafa um það, það á bara að afhenda þessar 1.500 milljónir úr ríkissjóði.“

Þetta væri ef til vill dæmi um það hvernig rekstur þessa opinbera hlutafélags hefði gjörsamlega snúist í höndunum á mönnum. „Þarna er kippt út fyrir sviga stórum rekstrarþáttum í eigu ríkisins  jú, með stjórnum yfir sér en án nokkurrar aðkomu kjörinna fulltrúa með atkvæði landsmanna á bak við sig. Við sjáum þetta líka í rekstri RÚV ohf. Þangað á að hella 500 milljónum núna, skýringarlítið,“ sagði hann enn fremur.

Þorsteinn sagði það valda honum miklum áhyggjum að taka ætti ákvörðun eins og þessa gagnrýnislaust og án þess að nokkur krafa væri gerð um að reksturinn væri tekinn til gaumgæfilegrar athugunar eins og við blasti að þyrfti að gera. „En á meðan bíður fátækasta fólkið á Íslandi eftir réttlæti í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert