Á fjórða hundrað á biðlista eftir hjúkrunarrými

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra (fyrir miðju) sést hér kynna sér aðstæður …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra (fyrir miðju) sést hér kynna sér aðstæður við nýbyggingu hjúkrunarheimilsins Sólvangs í Hafnarfirði í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi þeirra sem bíður eftir hjúkrunarrými hefur aukist úr 226 í 362 eða um 60% á landsvísu frá janúar 2014 til janúar 2018. Á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu umfram 90 daga eftir hjúkrunarrými um 35%. Á landsvísu var meðallengd biðar eftir úthlutun hjúkrunarrýmis 116 dagar á þriðja ársfjórðungi 2018.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland, þingmanns Flokks fólksins, um hjúkrunarheimili. 

Inga spurði m.a. um hvernig lengd biðlista eftir rými á hjúkrunarheimilum hafi þróast á síðustu fimm árum og hve löng bið sé eftir rými að meðaltali og hver sé staða biðlista eftir landshlutum.

Meðallengd biðtíma lengst úr 91 degi í 116 daga

Í svari Svandísar segir m.a., að miðað við tölur frá þriðju ársfjórðungum áranna 2014 og 2018 hafi meðallengd biðtíma eftir hjúkrunarrými aukist úr 91 degi í 116 daga.

„Af þeim 186 einstaklingum sem fengu úthlutað hjúkrunarrými á þriðja ársfjórðungi ársins 2014 biðu 57 einstaklingar af 186 lengur en 90 daga. Á sama tíma árið 2018 biðu 77 einstaklingar af 175 lengur en 90 daga eftir að fá hjúkrunarrými. 

Í samanburði biðlista milli landshluta er miðað við hlutfall af hverjum 1.000 íbúum yfir 67 ára aldri,“ segir í svari ráðherra. 

Biðlistinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lengst

Þar segir einnig, að á höfuðborgarsvæðinu hafi einstaklingum á biðlista eftir hjúkrunarrými fjölgað frá árinu 2014 og eru nú 8,9/1.000 íbúa miðað við 4,9/1.000 íbúa árið 2014.

Inga spurði ráðherra einnig hversu margir á biðlista eftir hjúkrunarrými hefðu andast áður en þeim gafst kostur á vist síðastliðin fimm ár.

110 látist á þessu ári sem voru á biðlista

Svandís segir að fjöldi þeirra einstaklinga sem létust á biðlista eftir hjúkrunarrými áður en til úthlutunar kom hafi verið 114 árið 2014, 141 árið 2015, 178 árið 2016, 183 árið 2017 og er nú 110 það sem af er árinu 2018. 

Spurð um áform ráðherra um að fullnægja þörf fyrir hjúkrunarrými, bendir Svandís á að ný hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verði tekin í notkun snemma á næsta ári og framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík séu komnar vel á veg. Með þessum framkvæmdum fjölgi hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára. 

Svör ráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert