Hefur verið bjargvættur Íslendinga um jólin

Börn og tengdabörn Baldvins stóðu vaktina í Pétursbúð um jólin …
Börn og tengdabörn Baldvins stóðu vaktina í Pétursbúð um jólin í fyrra og í ár. Ljósmynd/Baldvin Agnarsson

„Fólk hefur verið að hringja og spurja hvort við eigum hangikjöt, sem við eigum, en ég er lítið í því að fylgjast með hvað fólk er að versla. Ég er aðallega í því að fylla á, ég hef varla undan með gosið,“ segir Baldvin Agnarsson, eigandi Pétursbúðar í samtali við mbl.is.

Pétursbúð hefur verið opin um jólin síðastliðin tíu ár og bjargað aðfangadegi og jóladegi hjá mörgum fjölskyldum sem hafa komið að lokuðum dyrum hjá öllum öðrum verslunum þegar jólahátíðin stendur sem hæst. Baldvin segir marga koma á síðustu stundu og að fólk sé þá mikið að sækja í rjóma, malt og appelsín og fleiri vörur sem teljast nauðsynlegar í matargerðina um jólin.

Á aðfangadegi jóla er alltaf opið frá níu til fimm, á jóladag frá tólf til fimm og á morgun, annan í jólum, er opnunartíminn hefðbundinn, það er frá klukkan tíu til hálf tólf. Líkt og fyrr ár hefur verið nóg að gera í Pétursbúð síðastliðinn sólarhring. „Jóladagur er alltaf þokkalegur og það var mjög fínt í gær líka svo þetta er búið að vera mjög gott,“ segir Baldvin og bætir við: „Þetta er búið að vera rosalega gaman og við erum þakklát fyrir allt og alla.“

Skrautleg jólavertíð

Á ýmsu hefur gengið yfir jólavertíðina í Pétursbúð síðustu ár og má þá helst nefna símtal sem Baldvin fékk ofan af Akranesi á aðfangadag í fyrra. Sá sem hringdi spurði hvort Pétursbúð væri opin því viðkomandi þurfti nauðsynlega að komast í búð fyrir kvöldið og Pétursbúð reyndist vera sú búð sem næst var þó að hún sé á Ránargötu í miðbæ Reykjavíkur.

Þá var einn viðskiptavinur sem kom í búðina snemma á jóladag eftir að hafa vaknað klukkan fjögur aðfaranótt jóladags og munað eftir því að hún átti að sjá um tartaletturnar í jólaboði síðar um daginn. „Hún hringdi niðureft­ir og var kom­in fyr­ir há­degi. Við náðum að bjarga henni og hún varð guðslif­andi feg­in.“ Ann­ar viðskiptavinur hafði misst soðið af jóla­steik­inni í gólfið. „Við náðum að vísu ekki að bjarga hon­um með hrygg, en hann hef­ur kannski bjargað sér með ein­hverj­um ten­ing­um,“ sagði Baldvin í samtali við mbl.is í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina