Áramótabrennurnar byrjaðar að rísa

Tekið verður á móti efni í brennurnar næstu daga.
Tekið verður á móti efni í brennurnar næstu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmenn Reykjavíkurborgar hófu í morgun að hlaða bálkesti fyrir áramótabrennurnar. Tíu áramótabrennur verða í Reykjavík á gamlársdag, þar af sjö á vegum borgarinnar. Alls verða brennurnar á höfuðborgarsvæðinu 16 talsins.

Þorgrímur Hallgrímsson, rekstrarstjóri á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir efnið í brennurnar að mestu koma frá gámaþjónustum og endurvinnslum, en einhver fyrirtæki leggi einnig til ómálað timbur. Strangar reglur gilda um hvað má fara í brennurnar en aðeins má brenna hreint timbur, ekki málað timbur, plast, gúmmí eða unnið timbur.

Að sögn Þorgríms eru brennurnar yfirleitt ekki fullklárar fyrr en á gamlársdag en að morgni gamlársdags fer fram fundur í Skógarhlíð með lögreglu og slökkviliði þar sem farið er yfir veðurskilyrði og aðra þætti er snúa að brennunum. Ef aðstæður eru í lagi er olíu hellt á brennurnar upp úr hádegi.

„Við kveikjum svo í klukkan hálfníu,“ segir Þorgrímur en flestir brennugesta dvelja við brennurnar um stund áður en þeir halda heim í tæka tíð fyrir Áramótaskaupið. Þá taka verktakar við sem sjá um að slökkva í brennunum. „Við erum ekkert að trufla slökkviliðið í þessu,“ segir Þorgrímur.

Áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu 2018.
Áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu 2018. Kort/mbl.is

Sjá má á kortinu hér að ofan hvar og hvenær brennurnar á höfuðborgarsvæðinu fara fram.

Á Akureyri verður brenna í Réttarhvammi á vegum Akureyrarbæjar og hefst hún klukkan 20:30. Að brennu lokinni tekur við flugeldasýning í boði Norðurorku og Íslandsbanka. Þá verða brennur í Hrísey og Grímsey. Í Hrísey hefst brennan klukkan 17 en í Grímsey klukkan 20 en Kiwanisklúbbur eyjarinnar sér um brennuna og skýtur upp flugeldum.

Í Kópavogi verða tvær brennur um áramótin, í Kópavogsdal fyrir neðan Digraneskirkju og Þingabrenna í Gulaþingi. Kveikt verður í báðum brennum klukkan 20:30 og flugeldasýning Hjálparsveitar skáta hefst við Smárahvammsvöll klukkan 21:10.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjanesbæ verður engin brenna í sveitarfélaginu en enginn hefur sótt um að halda brennu á gamlársdag.

Á Akranesi verða áramótabrennur á Víðigrund klukkan 20:30 og á Elínarhöfða klukkan 21.

Á Egilsstöðum fer fram áramótabrenna sem haldin er í samstarfi björgunarsveitarinnar og Fljótsdalshéraðs. Kveikt verður í brennunni klukkan 16:30 og flugeldasýningin hefst klukkan 17:00.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar að störfum.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert