Fundað um alþjóðaflugvöll í Árborg

Stokkseyri. Landeigendum í Flóanum verða á þriðjudag kynnt áform um …
Stokkseyri. Landeigendum í Flóanum verða á þriðjudag kynnt áform um að hefja rannsóknir á kostum og göllum staðsetningar alþjóðaflugvallar fyrir norðan þéttbýlið á Stokkseyri. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarfélagið Árborg hefur boðað landeigendur sem eiga jarðir á áhrifasvæði hugsanlegs alþjóðaflugvallar í Flóanum, nánar tiltekið í Stokkseyrarmýri og Brautartungu, til fundar næstkomandi þriðjudag, 8. janúar.

Þar verða kynnt áform um að hefja rannsóknir á kostum og göllum staðsetningar alþjóðaflugvallar á þessum stað, norðan þéttbýlisins á Stokkseyri.

Samkvæmt Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra í Árborg hafa um 50 landeigendur verið boðaðir á fundinn á þriðjudag, en hann á nú ekki von á því að allir mæti, þar sem í mörgum tilfellum eru jarðir á svæðinu í sameign margra erfingja.

Gísli segir vinnuna „algjörlega á byrjunarstigum“ og í höndum áhugamanna, einkaaðila, sem hafa verið að drífa þessa vinnu áfram og fá til þess „móralskan stuðning sveitarfélagsins“, að sögn Gísla Halldórs.

„Það var niðurstaðan að það væri kannski best að kanna hvar þessi flugbraut gæti verið og hvaða jarðir myndu lenda á áhrifasvæði með tilliti til hljóðvistar, það er svæði sem tekur töluvert stóran radíus,“ segir Gísli og lýsir því að áhrifasvæðið myndi að líkum teygja sig allt frá ströndinni á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og til norðausturs að sveitarfélagamörkum Árborgar og Flóahrepps.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg. Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson

Gísli segir að ákveðið hafi verið að byrja á því að kanna hug landeigenda og fá frá þeim ábendingar og sjónarmið um þetta hugsanlega verkefni. „Með því myndum við í rauninni „starta“ svona fýsileikagreiningu. Í henni felast jarðvegsrannsóknir, veðurfarsrannsóknir með tilliti til flugs og svo ef fram í myndi sækja, umhverfismat og hljóðvistarmat,“ segir Gísli.

Í tilkynningunni frá bæjarstjóra á vef sveitarfélagsins segir að nauðsynlegt sé að fá fram sjónarmið landeigenda, bæði afstöðu til staðsetningarinnar og einnig upplýsingar sem þeir gætu komið á framfæri og varða framkvæmd rannsókna. Þeir landeigendur sem telja sig á áhrifasvæði hugsanlegs flugvallar en hafa ekki fengið fundaboð, eru hvattir til þess að hafa samband við sveitarfélagið.

Áður hefur verið um fjallað þessi áform um hugsanlegan flugvöll norðan þéttbýlisins á Stokkseyri í Morgunblaðinu. Í byrjun september í fyrra sagði Gísli Halldór að verið væri að skoða hugmyndirnar af alvöru.

Þá nefndi hann í samtali við blaðamann að fiskveiði- og vöruflutningahöfnin í Þorlákshöfn gæti styrkt nýjan flugvöll og öfugt, auk þess sem nýr flugvöllur gæti styrkt ferðaþjónustu á Suðurlandi og létt á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert