„Stærsta hjúkrunarheimili landsins“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/​Hari

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að vandinn sem steðjar að Landspítalanum vegna biðtíma sjúklinga eigi sér langan aðdraganda. Hann nái allt aftur til bankahrunsins og jafnvel fyrir það. 

Á þeim tíma hafi áhersla stjórnvalda verið á aðra þætti en að byggja upp spítalann og heilbrigðiskerfið með fullnægjandi hætti. Þau mál hafi aftur á móti batnað.

Í viðtali við Kastljós sagði hann að það sem komi fram í skýrslu landlæknis vegna stöðunnar á bráðamóttöku Landspítalans sé staðfesting á því sem Landspítalinn hafi verið að segja um alllangt skeið enda hafi starfsfólk spítalans verið undir miklu álagi.

Páll sagði að vandinn sé ekki bráðamóttökunnar. Hún sé mjög vel mönnuð en spítalinn sjálfur sé fullur og geti ekki tekið á móti öllu fólki. Þess vegna þurfi fólk að bíða eftir plássi eins lengi og raun ber vitni.  „Af hverju er spítalinn fullur? Hann er mjög góður sem bráðaspítali og sinnir sínum sérhæfðu verkefnum mjög vel en hann er líka stærsta hjúkrunarheimili landsins. Það er í rauninni vandinn í grunninn,“ sagði Páll.

Spurður hvers vegna biðtími sjúklinga lengist á milli ára, sagði hann að Íslendingum sé að fjölga, þeir séu að eldast og að ferðamenn séu orðnir fleiri en áður. Einnig sagði hann að mun fleiri bráðarúm hafi verið lokuð í ár vegna þess að skortur sé á hjúkrunarfræðingum.

Hann bætti við að mikilvægt sé að stjórnvöld bæti við hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu og að fleira heilbrigðisstarfsfólk fáist til starfa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert