Greinir á um leiðréttingu

Tryggingastofnun hefur á grundvelli útreikninga sinna skert bætur til öryrkja, …
Tryggingastofnun hefur á grundvelli útreikninga sinna skert bætur til öryrkja, en þeir voru á röngum forsendum. Félagsmálaráðuneytið telur leiðréttingu aðeins ná 4 ár aftur í tíma. mbl.is/Eggert

Tryggingastofnun hefur reiknað örorkulífeyri til þeirra sem hafa verið búsettir erlendis hluta ævinnar rangt í lengri tíma, en Öryrkjabandalag Íslands og félagsmálaráðuneytið greinir á um hvort fyrningarfrestur skuli vera á kröfum þeirra sem hafa fengið greiðslur sínar frá Tryggingastofnun skertar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir í samtali við mbl.is að bandalagið telji að Tryggingastofnun hafi reiknað greiðslurnar rangt frá árinu 2009 og að það beri að leiðrétta.

Jafnframt segir Þuríður það skilning bandalagsins á skilaboðum sem það hefur fengið að það sé mat ráðuneytisins að leiðrétting greiðslna muni aðeins ná fjögur ár aftur í tímann.

Félagsmálaráðuneytið staðfestir túlkun bandalagsins varðandi fyrningartíma í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. „Þetta var sú niðurstaða sem sérfræðingar ráðuneytisins meta að sé rétt.“ Tekið er þó fram að málið er á forræði Tryggingastofnunar og mun stofnunin afgreiða málið án beinnar aðkomu ráðuneytisins.

Þarf að endurgreiða

Á fundi velferðarnefndar Alþingis verður til umræðu álit umboðsmanns Alþingis þess efnis að ágallar hafa verið í útreikningum Tryggingastofnunar á greiðslum örorkulífeyris þeirra sem hafa átt búsetu erlendis.

„Þetta snýst um það að Tryggingastofnun hafi ekki verið að reikna þetta rétt og að þeir hafi túlkað lögin með einkennilegum hætti,“ segir Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.

Hún segir umboðsmann kynna álit sitt fyrir nefndinni í dag, einnig að fulltrúar Öryrkjabandalagsins og Tryggingastofnunar munu funda með nefndinni í dag.

„Það þarf að byrja að greiða þetta út rétt og að endurgreiða,“ segir Halldóra sem bendir á að enn sé eftir að útkljá útfærslu endurgreiðslna. „Við þurfum að fá fram ýmsar upplýsingar, við þurfum að vita hvenær Tryggingastofnun byrjar að reikna þetta með þessum hætti. Öryrkjabandalagið tekur fyrst eftir þessu 2009.“

Spurð hvort breytingin í útreikningum sé tengd við fjárhagsstöðu íslenska ríkisins á þessum tíma segist hún ekki vita það. „Þetta er áhugaverð tímasetning alla vega.“

Halldóra Mogensen.
Halldóra Mogensen. mbl.is/Eggert

Lækkuðu greiðslur um rúman helming

Fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis að einstaklingur hafi leitað til embættisins í kjölfar þess að úrskurðarnefnd almannatrygginga úrskurðaði að greiðsluhlutfall örorkulífeyris hennar skyldi lækkað úr 47,14% í 21,79% vegna nýs útreiknings á búsetuhlutfalli hennar á Íslandi.

„Byggðist sú aðferð nefndarinnar einkum á reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa. Athugun umboðsmanns laut að því hvort viðhlítandi lagastoð hefði verið fyrir því að skipta framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega með þessum hætti.“

Sagði umboðsmaður úrskurð nefndarinnar ekki hafa verið í samræmi við lög og að ákvæði laga um almannatryggingar um útreikning búsetutíma á Íslandi væru óskýr.

mbl.is