Geti orðið grunnur að lausn kjarasamninga

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Það er ánægjulegt að sjá að tillögurnar eru komnar fram. Það sem mest er um vert, er að það næst sátt um tillögurnar í þessum stóra hópi og það hlýtur að vera upphaf að einhverju,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um tillögur átaks­hóps um aukið fram­boð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á hús­næðismarkaði, sem kynntar voru í Hannesarholti í dag. Átakshópurinn var skipaður fulltrúum atvinnulífs, verkalýðshreyfingar, ríkisstjórnar, Íbúðalánasjóðs og Samtaka sveitarfélaga síðasta haust.

Halldór telur tillögurnar gott innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður, en fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa kallað eftir aðkomu hins opinbera að kjaraviðræðunum, m.a. hvað húsnæðismál varðar. 

„Við erum sammála um að húsnæðismálin séu einn stærsti málaflokkurinn í komandi kjarasamningum og það að við náum saman um þessi áhersluatriði er mjög jákvætt,“ segir Halldór.

Samstarf og málamiðlun aðalatriðið

„Aðalatriðið í þessu er að samstarf margra ólíkra hópa eins og þarna er undir krefst þess að menn miðli málum. Ég tel að það hafi tekist á farsælan máta og að allir aðilar sem að þessu koma geti unað sáttir við sitt. Væntanlega finnst hverjum hópi sitthvað um einstök atriði, en aðalatriðið er að líta á heildarmyndina og ég held að hún sé ásættanleg fyrir alla og geti orðið grunnur að lausn kjarasamninga,“ segir hann. 

Þannig að þú telur að tillögurnar séu gott innlegg inn í kjaraviðræðurnar?

„Tvímælalaust eru þær það og ég met það ekki síst af viðbrögðum samningsaðila okkar sem hafa lýst yfir mikilli ánægju með þetta. Það gleður mig að þeir líti svona jákvæðum augum á þessar tillögur,“ segir Halldór. 

Tekist á við framboðsskort á húsnæðismarkaði

Aðspurður segir Halldór að Samtök atvinnulífsins séu sérstaklega sátt við það að tillögurnar taki margar hverjar á framboðsskorti á húsnæðismarkaði. 

„Þau atriði sem ávarpa framboðsskortinn með beinum hætti eru þau atriði sem standa upp úr í þessari skýrslu auk tillagna um það hvernig við getum náð utan um háan byggingarkostnað á Íslandi til þess að lækka hann til framtíðar, ekki bara sem hluta af átaksverkefni, heldur fyrir markaðinn í heild og til langs tíma. Þetta stendur upp úr að mínu viti,“ segir hann.

mbl.is