„Samræmist okkar kröfum mjög vel“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/​Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er ánægð með tillögur átakshóps um fram­boð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á hús­næðismarkaði sem kynntar voru í Hannesarholti í dag. Spurð hvernig tillögurnar horfi við yfirstandandi kjaraviðræðum segir hún að þær samræmist kröfum Eflingar vel, en þó sé ekkert enn fast í hendi. Kostnaðarmeta þurfi tillögurnar og gera lagabreytingar.

Átaks­hóp­ur­inn var skipaður full­trú­um at­vinnu­lífs, verka­lýðshreyf­ing­ar, rík­is­stjórn­ar, Íbúðalána­sjóðs og Sam­taka sveit­ar­fé­laga síðasta haust og eru tillögur hans um fjörutíu talsins. Snúa þær að ýmsum þáttum húsnæðismarkaðar, m.a. stofnsetningu óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga og að leitað verði eftir samstarfi stétt­ar­fé­laga, Samtaka atvinnulífsins og líf­eyr­is­sjóða um fjár­mögn­un hús­næðis­fé­lags­ins Blæs.

„Ég get ekki betur séð en að það sé margt þarna sem okkur líst mjög vel á,“ segir Sólveig Anna. Hún nefnir í fyrsta lagi þá tillögu er varðar leitun að samstarfi um fjármögnun Blæs.

„Þótt Bjarg sé gott í sjálfu sér er það takmarkað og mætir þörfum afmarkaðs hóps. Með Blæ er komið til móts við lægri miðtekjuhópana til dæmis. Það skiptir mjög miklu máli,“ segir Sólveig Anna. „Síðan er gert ráð fyrir óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum og það er nefnt sem hluti af uppbyggingu húsnæðismarkaðar. Við hljótum að fagna því mjög,“ segir hún. 

Leiguverndin mikið fagnaðarefni

Sólveig Anna segir að margir félagsmanna Eflingar séu í hópi leigjenda, en sérstakur hluti tillagnanna snýr að honum.

„Ég er mjög ánægð með þann hluta sem snýr að leiguvernd, betri og öruggari leigumarkaði. Það skiptir mína félagsmenn mjög miklu máli þar sem við sjáum að fólki á leigumarkaði fjölgar í okkar hópi. Ef við hugsum síðan um þarfir aðflutts verkafólks og mjög tekjulágt fólk, þá skiptir það það fólk mjög miklu máli að réttarstaða leigjenda sé styrkt. Það er mikið fagnaðarefni ef það nær í gegn,“ segir Sólveig Anna.

Hún nefnir til viðbótar að tillaga um takmörkun heimilda til breytinga á leigufjárhæðum sé mörgum leigjendum mikilvæg sem og tillaga um stuðning við hagsmunasamtök leigjenda. Sólveig Anna segir að fái tillögurnar framgang sé stór vandi leigjenda leystur.

„Bara ef sá hluti fer í gegn, þá er það ótrúlega mikið gæfuspor. Þá höfum við náð einhverjum tökum á þessu fáránlega ástandi sem bitnar svo ótrúlega illa á fólki með lágar tekjur eins og kannanir Íbúðalánasjóðs hafa sýnt fram á. Þetta er fólkið sem þarf oftast að flytjast, býr við minnsta leiguöryggið og borgar gríðarlega háan hluta af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Ef við getum sleppt því fólki úr gildrunni, þá er það mjög gott,“ segir hún.

„Alls ekkert fast í hendi“

Sólveig Anna segir verkalýðshreyfinguna munu leggja mikla áherslu á að vinna við lagabreytingar fari strax af stað og að hún verði vönduð. Við lagasetninguna þurfi verkalýðshreyfingin „að fá gott pláss.“ Að undanförnu hafa verkalýðsleiðtogar kallað eftir framlagi af hálfu ríkisins til lausnar í kjaradeilunni.

Hvernig horfa tillögurnar við kjaraviðræðunum og hvernig samræmast þær kröfum ykkar almennt séð?

„Þetta samræmist kröfum okkar mjög vel. Það er frábært. Síðan á auðvitað eftir að kostnaðarmeta þetta, og finna út hvað þetta þýðir raunverulega. Við þurfum að skoða það vel og vandlega,“ segir hún.

„Á þessum tímapunkti er samt alls ekkert fast í hendi og nú þurfum við að sjá hversu mikil alvara fylgir máli. Ég get ekki ímyndað mér annað en að svo sé og að fólk muni leggja mjög hart að sér til að láta þessar tillögur verða að veruleika,“ segir hún. „Það er margt þarna sem við erum mjög ánægð með og ef af þessu verður, þá er þetta mikið fagnaðarefni,“ segir Sólveig Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert