Lögreglumaður ákærður eftir bílveltu

Lögreglan veitti manninum eftirför sem endaði á Þjórsárdalsvegi í maí …
Lögreglan veitti manninum eftirför sem endaði á Þjórsárdalsvegi í maí í fyrra. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi hefur verið ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og brot í opinberu starfi með því að hafa í maí í fyrra ekki gætt lögmætra aðferða við eftirför.

Ók lögreglumaðurinn þrívegis á afturhorn bifreiðar, sem veitt var eftirför á Þjórsárdalsvegi, með þeim afleiðingum að ökumaður þeirrar bifreiðar missti stjórn á bifreiðinni á um 95 km/klst. hraða. Fór bifreiðin út af veginum og valt þar tvær veltur og endaði á réttum kili.

Í ákæru embættis héraðssaksóknara kemur fram að maðurinn sem veitt var eftirför hafi hlotið brot á hálslið og 10 sentimetra langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er lögreglumaðurinn við störf hjá embættinu.

mbl.is