Innkallanir á bóratríku slími tíðar

Í þrígang hefur Neytendastofa tilkynnt um hættuleg slím á síðastliðnu …
Í þrígang hefur Neytendastofa tilkynnt um hættuleg slím á síðastliðnu ári.

Síðastliðið ár hefur Neytendastofa í þrígang tilkynnt innköllun á hættulegu leikfangaslími, tvisvar á seinustu tveimur vikum. Í öllum tilfellum var um að ræða slím sem innihélt of mikið magn af bóroni eða bórati. Þá hefur landlæknisembættið sagt frá því að því sé kunnugt um tilvik þar sem barn var lagt inn á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans með geðrof­s­ein­kenni sök­um álíka slíms.

Styðjast við rannsóknir frá öðrum löndum

Í samtali við mbl.is segir Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, að Neytendastofa reiði sig að talsverðu leyti á rannsóknir frá öðrum löndum, enda hafi Neytendastofa því miður einungis takmarkaða möguleika á að rannsaka vörur á innlendum markaði. Tilkynningar berist þó Neytendastofu þar sem stjórnvöld í öðrum löndum hafa efnagreint slík efni og komist að því að þau séu ekki í lagi, segir Tryggvi. Hann bætir við að auðvitað berist Neytendastofu einnig tilkynningar frá innlendum aðilum. 

Tryggvi segir að þegar tilkynnt er um varning eins og leikfangaslímið sem hefur ógnað heilsu manna séu seljendur og dreifingaraðilar látnir vita og þeir eigi þá að taka varninginn úr sölu. „Ef einhver aðili myndi neita að taka slíkan varning úr sölu þá er Neytendastofa með valdheimildir til þess að setja á sölubann og krefjast innköllunar eins og við gerum stundum.“

Tryggvi minnir á að neytendur eigi alltaf rétt á öruggum vörum og bendir á mikilvægi þess að hættulegum varningi sé eytt þegar þess er þörf. „Það er mjög mikilvægt að þessu sé ekki bara pakkað ofan í kassa, sent eitthvað og endurselt.“

Bór í glerull, bleikiefni og flugeldum

Á Vísindavefnum má finna umfjöllun um bór en þar segir m.a. að bór sé hálfmálmur sem aldrei finnist einn og sér í náttúrunni. Það megi nota á marga vegu en sem dæmi megi finna bórax, eitt af efnasamböndunum sem bór myndar, í þvottaefnum og sótthreinsunarefnum. Natríumbóratpentahýdrat er mest notaða bórefnasambandið en það hefur verið notað við framleiðslu á glerull og í bleikiefni. Þá hefur bór verið notað á fleiri vegu, til dæmis við gerð skotelda þar sem það gefur frá sér grænan lit við bruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert