Keyptu sér ekki miða um „dauðadal“

Bílar út af veginum vegna hálku í nágrenni Víkur í …
Bílar út af veginum vegna hálku í nágrenni Víkur í Mýrdal á dögunum. Mbl.is/Jónas Erlendsson

„Ég held að ástandið hafi aldrei verið jafn slæmt og í vetur,“ segir Kristján Logason, leiðsögumaður og bílstjóri, um færðina á þjóðveginum milli Víkur og Hafnar í Hornafirði sem hann segir stundum stórhættulega. Kristján er vanur bílstjóri og er þriðja árið í röð að aka með ferðamenn þessa leið en er nú farið að vera „meinilla“ við það. Hann segist heyra það á félögum sínum að einhverjir séu jafnvel að hugsa um að hætta störfum. „Þeir vilja ekki leggja líf sitt í hættu.“ Hann tekur undir þessar áhyggjur þeirra og segir: „Ég er ekki tilbúinn að taka endalaust áhættu með líf annarra. Ég er ekki viss um að þessir ferðamenn hafi ætlað að kaupa sér miða í skoðunarferð í gegnum dauðadal“.

Starfsmenn Vegagerðarinnar segja lengra seilst í þjónustunni á veginum í vetur en reglur geri ráð fyrir. Óvenjuleg tíð hafi hins vegar sett strik í reikninginn síðustu vikurnar. Viljinn til að sinna vetrarþjónustu sé sannarlega fyrir hendi en eigi að bæta hana enn frekar þurfi fleiri bíla til að skafa, sanda og salta. Þá hafi átt sér stað þjóðfélagsbreytingar með aukinni ferðamennsku sem þurfi að ræða í samfélaginu og taka tillit til. Umferðin hafi aukist hratt á stuttum tíma og sprenging hafi orðið í fjölda óvanra bílstjóra á vegunum sem af hljótist margvísleg vandamál.

Veiktist af stressi

Kristján var rámur í röddinni og hóstandi þegar mbl.is ræddi við hann og telur ástæðuna fyrir því, að hann veiktist snögglega í byrjun vikunnar, stress sem fylgir því að aka þessa leið en hún liggur m.a. að nokkrum fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. Jökulsárlóni og Skaftafelli. „Ég hef keyrt ýmsa skrítna og hættulega vegi í heiminum í gegnum tíðina og á ýmsum farartækjum. En að keyra þennan veg er það versta sem ég hef lent í á ævinni.“

Leiðsögumenn segja rútu eftir rútu hafa farið út af í …
Leiðsögumenn segja rútu eftir rútu hafa farið út af í hálkunni síðustu vikur. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Hann segir að vegurinn hafi verið sérlega hættulegur og „skelfilegur“ síðustu daga janúar og nú í byrjun febrúar. Rúta eftir rútu hafi farið út af. „Og þegar þú ert í þeirri aðstöðu að þú keyrir frá Kirkjubæjarklaustri og austur úr á öfugum vegarhelmingi, ekki vegna þess að þú ert með betra veggrip þar heldur til að eiga eitthvað upp á að hlaupa þegar þér verður hent út af, þá er ástandið orðið mjög slæmt.“

Voðinn vís

Og það er hálkan á veginum sem sé helsta ógnin. Þegar við bætist mikill vindur og sterkar vindhviður er voðinn vís. „Það er bara algjör ís á köflum og þó að við ökum á 20 kílómetra hraða þá fer bíllinn samt af stað í vindinum.“

Kristján segir að bíllinn sem hann aki, lítil rúta, sé vel útbúinn á glænýjum og negldum dekkjum. Hann eigi því vel að þola smá vind, 10-15 m/s, án þess að renna til. „Ég er samt að missa stjórn á honum.“ Hann telur að Vegagerðin ætti að geta ráðið við, að minnsta kosti oftar er nú er gert, að hálkuverja og koma í veg fyrir að þetta ástand skapist.

Margir út af í hálkunni

Svæðið sem um ræðir er í þjónustuflokki 2-3 hjá Vegagerðinni sem þýðir að sumir kaflar leiðarinnar, m.a. brekkur, beygjur og vegkaflar við brýr, eru hálkuvarðir en aðrir aðeins í flughálku. Kristján segir að miðað við þetta ætti að vera hægt að beita sömu aðferðum annars staðar. „Spurningin er bara þessi: Af hverju [er það ekki gert] og hver ætlar að gjalda fyrir ef það endar með dauðaslysi?“

Síðustu daga hefur hann ítrekað orðið vitni að því að bílar fari út af veginum vegna hálku þó að hann hafi sjálfur sloppið fyrir horn, eins og hann orðar það.

Oftast séu það bílaleigubílarnir sem endi utan vegar. Þeim aki óvanir bílstjórar, erlendir ferðamenn, sem aldrei eða sjaldan hafi ekið við aðstæður sem þessar. „Þeir eru stundum eins og hráviði út um allt.“

Hættuleg ísbrynja myndast

Það er mat Kristjáns að veginum sunnan Víkur sé betur sinnt heldur en kaflanum eftir það. Þar sé vel skafið sem skipti máli þegar hálkan eigi í hlut. Um leið og komið sé handan Víkur sé annað uppi á teningnum. Sé snjórinn ekki skafinn rækilega verði hann að hættulegri ísbrynju.

Venjulega eru um 15-17 farþegar í bílnum hjá Kristjáni. Oft er hann að keyra á kvöldin. „Maður gerir allt sem í manns valdi stendur til að þeir verði ekki ekki varir við ástandið.“ Það takist oft, ferðamennirnir leggi sig í bílnum eftir langan dag í skoðunarferðum.

Sjálfur sitji hann hins vegar stífur við stýrið, með hinn dýrmæta farm innanborðs, mannslíf, og vandi sig við aksturinn.

Kristján segist að sjálfsögðu gera sér grein fyrir að á Íslandi sé allra veðra von. Hins vegar er það hans mat að fjölga þurfi veðurmælum og vefmyndavélum og sinna betur vetrarþjónustu. Það sé tímabært og nauðsynlegt nú þegar umferðin um þessa vegi hafi stóraukist á stuttum tíma.

Mest hætta af bílaleigubílum

Undir þetta tekur Magnús Kristjánsson, annar vanur bílstjóri og leiðsögumaður. Hann segir veginn hreinlega geta verið lífshættulegan. Sjálfur segist hann ráða við aðstæður en mest óttist hann þá sem aki bílaleigubílunum. „Maður er í lífshættu að mæta bílum sem óvanir bílstjórar, ferðamenn, aka.“ Ekki sé hægt að keyra til Hafnar þessa dagana án þess að sjá 2-3 bíla sem farið hafi út af veginum. „Það þarf að sanda þetta og salta betur, það er það sem þarf að gera. Það er gert, m.a. í beygjum og í brekkum, en alls ekki nóg á öðrum köflum. Alls ekki. Ég hvet [Vegagerðina] til að gera betur.“

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á vegum landsins fylgir ákveðnum þjónustureglum. Vegir landsins …
Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á vegum landsins fylgir ákveðnum þjónustureglum. Vegir landsins eru flokkaðir í þjónustustig eftir því hversu mikil umferð fer um þá að meðaltali á dag. Skjáskot/Vegagerðin

Magnús segir að þegar vindur sé lítill sé vegurinn oftast í lagi sé ekið á bíl á negldum dekkjum og farið varlega. Vandinn felist hins vegar m.a. í því að sumir kaflar geti verið góðir en að inn á milli skapist hættulegar aðstæður við ákveðin skilyrði. Vindurinn sé versti óvinurinn þegar hálkan er mikil. Á þessu eiga vanir bílstjórar von en ekki þeir sem óvanir eru, ferðamennirnir sem í hundraðavís aka þessa leið daglega. „Þeir fjúka bara út af.“

Aka ýmist of hægt eða of hratt

Þá segir Magnús það sína reynslu að sumir ferðamenn aki ýmist of hratt eða of hægt. Stundum hreinlega stoppi þeir á vegunum sem eru í ofanálag of mjóir. „Ferðamenn eru forvitnir og ef þeir sjá hest eða hreindýr þá stoppa þeir.“ Þetta skapi stórhættu. Fjölga þyrfti því útskotum til muna.

Sé skýringin á lélegri vetrarþjónustu sú að farið sé eftir einhverjum stöðlum þurfi einfaldlega að breyta þeim. Sérstaklega verði að taka tillit til vinds og þess að þarna aki sífellt fleiri og m.a. óvanir bílstjórar.

Ganga lengra en reglur segja til um

Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, hefur heyrt þessar óánægjuraddir með vetrarþjónustuna. Það hefur Reynir Gunnarsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Höfn, einnig gert. Svæðið sem þeir sinna er víðfeðmt; nær allt frá Eyjafjöllum í vestri og inn í Berufjörð í austri. Þeir segjast báðir ganga lengra í hálkuvörnum en reglur segi til um en engu að síður megi ávallt gera betur. Til þess þyrfti þó að bæta við bílum og mannskap.

Þeir benda á að tíðin hafi verið nokkuð óvenjuleg undanfarnar vikur. „Það hefur verið kalt, ekki mikill snjór en stöðugur skafrenningur svo það hefur verið nánast ómögulegt að hálkuverja,“ segir Ágúst. Við þær aðstæður sé nánast tilgangslaust að salta og sanda. „Við höfum lent í miklu brasi, þetta hefur verið mjög erfitt ástand.“

Reynir tekur undir þetta og segir að þegar veturinn hafi loks bankað upp á hafi hann reynst vindasamur. „Þetta hefur verið dálítið strembið.“

Ók 8.000 kílómetra á einum mánuði

En þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður sé alltaf reynt að hálkuverja og sem dæmi hafi bíllinn sem fer á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs ekið rúmlega 8.000 kílómetra í síðasta mánuði. Þessi kafli sé um 70 kílómetra langur. Þannig að ferðirnar um hann eru þó nokkrar.

Ágúst hefur yfir þremur bílum að ráða, einum fleiri en í fyrra. Reynir er með fjóra bíla. „Þeir skrapa veginn til að minnka ísinn og ef það er ekki renningur þá reyna þeir að kasta á það svo komi smá grip,“ segir Ágúst.  

Samkvæmt reglunni sem fyrir liggur á svæðinu skulu hættulegar beygjur, brekkur og kaflar við brýr hálkuvarðir og aðrir staðir í flughálku. „En við erum að gera langt umfram það sem við eigum að vera að gera. En það er hægt að gera enn betur,“ segir Ágúst.

Vantar geymslur fyrir salt og sand

Í því samhengi bendir hann á að engin saltgeymsla sé í nágrenni Víkur og því þurfi að flytja saltið að langa leið. „Í síðustu viku kom ég með 120 tonn af salti til Víkur sem blandað er sandi og sett á bílana.“ Saltskemma á svæðinu yrði til mikilla bóta. Þá væri hægt að nota hreint salt til að „slást við svona færi“.

Lítil rúta sem fór út af veginum í lok janúar.
Lítil rúta sem fór út af veginum í lok janúar. Ljósmynd/Sveinn Ásgeir Jónsson

Reynir er sammála þessu og segir að í dag sé saltið t.d. geymt úti og fari illa í ýmsum veðrum sem gangi yfir. Skemmur fyrir sand og salt myndu breyta miklu. „Maður hefur barist fyrir þessu í mörg ár,“ segir Reynir sem vonast til að nú verði látið verða af þessu.

En þjónustustigið er ekki það eina. „Vegirnir eru mjóir og það er afskaplega erfitt að vera á mjóum vegi í hálku og roki,“ segir Ágúst. „Lítið pláss og ekkert svigrúm. Bílstjórar aka stundum hratt þar sem langt er á milli staða. Við erum með mikinn vind, upp undir 40-50 metra á sekúndu, og það er óvant fólk að keyra í þessu.“

Hræddir við að mæta bílaleigubílum

Reynir segist í raun furða sig á að fleiri óhöpp verði ekki á þessum slóðum en raun ber vitni miðað við þann mikla fjölda reynslulítilla og jafnvel reynslulausra bílstjóra sem aka um í vetrarfærðinni. „Þeir kvarta undan þessu, bílstjórarnir í snjómokstrinum. Þeir eru skíthræddir við að mæta þessum bílum, að lenda á þeim. Þeir víkja illa og hleypa þeim ekki fram úr.“

Ágúst bendir á að dagsdaglega sé töluvert meiri umferð á þjóðveginum um Vík í Mýrdal en til Akureyrar. Og mikill meirihluti þeirra sem situr í bílunum séu ferðamenn. Sumir þeirra eru jafnvel á húsbílum að vetri og af því hefur Reynir sérstakar áhyggjur. Slíkir bílar taki á sig mikinn vind. „Það er varla forsvaranlegt að leigja [húsbíla] út að vetri.“

Þá nefnir hann að jafnt að vetri sem sumri séu farnar dagsferðir á rútum frá Reykjavík að Jökulsárlóni þó að gera þurfi ráð fyrir mun lengri tíma í akstur á veturna á þessu svæði þar sem allra veðra er von. „[Rútu]bílstjórarnir eru þá undir mikilli tímapressu. Þetta finnst okkur áhyggjuefni og umhugsunarvert. Þeir þyrftu að gista einhvers staðar á leiðinni.“

Miðað við fjölda bíla

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á vegum landsins fylgir ákveðnum þjónustureglum. Vegir á borð við Reykjanesbraut og Hellisheiði eru í þjónustuflokki 1 svo dæmi sé tekið. „Þá er hálka ekki viðurkennt viðvarandi ástand og við henni brugðist með fyrirbyggjandi hálkuvörnum,“ útskýrir Einar Pálsson, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar.

Svo að þjónustan sé með þeim hætti að vetri þarf umferðin um veginn að ná 3.000 bílum daglega á langleiðum og 2.000 bílum á styttri köflum milli þéttbýlisstaða. Sem dæmi er þjónustuflokkur 1 í gildi frá Reykjavík að Selfossi en flokkur 2 milli Selfoss og Hellu og svo áfram allt austur í Jökulsárlón. Í þeim flokki þarf að vera flughálka á veginum svo hálkuvörnum (salti og/eða sandi) sé beitt, en annars er hálkuvarið á varasömum stöðum, s.s. í beygjum, brekkum og við brýr.

Á þessari leið, þ.e. frá Selfossi og austur á Höfn, er ýmist hálkuvarið með salti eða sandi. Munurinn skýrist af ýmsum þáttum, m.a. hvað þjónustubílar eru að sinna löngum vegköflum og hversu mikil umferð er á þeim. „Saltið virkar ekki vel nema að umferðin sé töluverð til að hræra í því,“ bendir Einar á.

Snjómokstursvél í nágrenni Víkur í Mýrdal.
Snjómokstursvél í nágrenni Víkur í Mýrdal. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Reglur þurfa að vera eins alls staðar

Umferðin hefur aukist hratt um þjóðveginn á þessum slóðum síðustu misseri og á sumum svæðum nálgast hún skilgreiningu fyrir þjónustuflokk 1, t.d. milli Selfoss og Hellu. Við Vík er vetrardagsumferð nú um 1.600 bílar á dag og austan Víkur er hún um 800 bílar daglega.

En er tímabært að breyta þessari fjöldaskilgreiningu miðað við að mun fleiri óvanir ökumenn eru að aka þessa leið nú en áður?

„Það er margt sem mætti breyta í þessu,“ segir Einar en bendir á að ef viðmiðin yrðu færð niður á þessu svæði þyrfti að gera slíkt hið sama á öðrum svæðum með sambærilegri umferð. „Það þarf að hafa reglurnar eins.“ Ýmislegt hafi þó verið gert til úrbóta, m.a. að bæta við einum snjómokstursbíl á Vík í vetur. Ef hálkuverja ætti lengri kafla þyrfti að fjölga bílum enn frekar og koma upp salt-/sandgeymslum víðar. Vilji stendur til þess, t.d. við Vík.

Lengra sé gengið en reglan segi til um þegar aðstæður séu sérlega erfiðar eins og upp á síðkastið. „Við tökum okkur ákveðið svigrúm þegar slíkt ástand varir. Annað er ekki forsvaranlegt.“

Einar segir hins vegar vandséð hvernig hægt væri að breyta þjónustustiginu miðað við fjölda óvanra bílstjóra sem aka austur á hverjum degi. Hann segir útlendinga vissulega oft ekki átta sig á þeim aðstæðum sem eru á íslensku vegunum. En það megi yfirfæra á ýmsa staði um allt land.

Gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar

Hann segir að ræða þurfi þá þjóðfélagsbreytingu sem aukin ferðamennska hefur ýtt af stað. Inn í hana fléttist svo húsnæðisekla á höfuðborgarsvæðinu sem hafi ýtt fólki út í nágrannasveitarfélögin. „Það eru fleiri óvanir vegfarendur að fara lengri leiðir en áður. Það hafa orðið gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á örfáum árum samhliða uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Við finnum klárlega fyrir þeim. Aukin áhersla á að loka vegum er afleiðing af þessu. Vegum er lokað við aðstæður sem vanir bílstjórar gætu ráðið við, ef umferð væri minni.“

Eins og fleiri benda á eru sumir vegir auk þess mjóir. „Ef umhverfið er ekki fyrirgefandi þá má ekkert út af bera. Hættulegast er þegar aðstæður eru góðar á köflum en breytast svo skyndilega til hins verra. Það er stóra hættan á Suðurlandinu.“

Dagsferðir eru farnar frá Reykjavík í Jökulsárlón á Breiðamerkursandi yfir …
Dagsferðir eru farnar frá Reykjavík í Jökulsárlón á Breiðamerkursandi yfir vetrartímann. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einar telur að ástandið sé þokkalegt hvað veðurstöðvar og vefmyndavélar varðar. Bætt hafi verið nokkuð í að þessu leyti að undanförnu „og við erum ekki hætt þeirri uppbyggingu“.

Þörf á endurskoðun

Hann segir það engan vafa í sínum huga að þjónusta á vegum landsins verði sífellt meira rædd á komandi misserum. „Við þurfum að taka þessa breyttu þjóðfélagsmynd með í reikninginn. Við eigum að endurskoða hvað við getum gert og þar spilar fjármagnið inn í. Vegakerfið verður breikkað og bætt en þá þarf þjónustan að fylgjast að.“

Einar segist sannarlega hafa skilning á aðstæðum leiðsögumannanna. Þeir stundi atvinnugrein sem standi undir stórum hluta þjóðarbúsins. „Okkar fyrsta markmið er að halda vegum greiðfærum. En Suðurlandið er erfitt, þar er oft mikil veðurhæð undir jöklum. Og þar er hreinlega útilokað að halda vegum ávallt greiðfærum.“ Við þannig aðstæður þurfi að loka vegum. „Það er auðvitað alltaf spurning hvort eigi að vera með þessa forsjárhyggju eða heldur láta hverjum bílstjóra það eftir að taka áhættuna. Það er umræða sem er alveg þess virði að taka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert