Biðjast afsökunar og bjóða bætur

„Þessum inngripum í akstursskráningu bílanna var hætt árið 2015.  Sá sem bar ábyrgð á þessari framkvæmd hefur hætt störfum og kemur ekki lengur nálægt rekstri fyrirtækisins. Þennan dómgreindar- og trúnaðarbrest er ekki hægt að afsaka en fyrirtækið hefur fullan vilja til að bæta hlut þeirra sem urðu sannanlega fyrir tjóni í þessum viðskiptum.“

Þetta segir meðal annars í yfirlýsingu frá bílaleigunni Procar í kjölfar umfjöllunar þáttarins Kveiks í Ríkisútvarpinu í kvöld um að átt hafi verið við kílómetramæli bifreiða í eigu fyrirtækisins sem síðan voru leigðir til ferðamanna og að lokum seldir sem notaðar bifreiðar.

Fram kemur í yfirlýsingunni að tilgangurinn með þessu hafi verið að gera bifreiðarnar auðseljanlegri. Þetta hafi gerst á árunum 2013-2015. Á þeim tíma hafi Procar selt um 650 notaðar bifreiðar en ekki liggi endanlega fyrir við hversu margar af þeim hafi verið átt með þessum hætti. Mögulega 100-120 bifreiðar.

„Þetta var gert með því að akstursmælar bílanna  voru „færðir niður“ og þannig gefið til kynna að þeir væru minna eknir en raun var á. Í flestum tilfellum nam niðurfærslan 15-30 þúsund kílómetrum. Tilgangurinn var að gera bíla fyrirtækisins auðseljanlegri en á þessum árum kom mikill fjöldi bíla á markaðinn frá bílaleigum og hörð samkeppni var um sölu á notuðum bílum til almennings,“ segir enn fremur í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Fólk geti sótt um leiðréttingu sinna mála

Fyrirtækið hafi nú undirbúið ferli sem miði að því að þeir sem keyptu umrædda bíla geti sótt um leiðréttingu sinna mála. Óháður aðili verði fenginn til þess að úrskurða um sanngjarnar bætur til þeirra sem keyptu bíla með ranga kílómetraskráningu af fyrirtækinu á þessum árum.

Er þeim sem keyptu bifreiðar af Procar á árunum 2013-2016 boðið að hafa samband með tölvupósti við Draupni lögmannsþjónustu á netfangið dls@dls.is sem hafa muni milligöngu um greiðslu bóta til þeirra sem keyptu bíla sem þetta eigi við um.

Þá geti þeir sem keyptu bifreiðar af Procar á umræddu tímabili fengið ópersónugreinanleg afrit af leigusamningum viðkomandi bifreiðar til að fá fullvissu um það hvort átt hafi verið við kílómetramæli viðkomandi bifreiðar. 

„Forsvarsmenn Procar biðja viðskiptavini, almenning og starfsfólk, sem unnið hefur fyrir fyrirtækið í góðri trú, afsökunar á þessum mistökum. Þá skal árétta að Bílamarkaðurinn sem seldi bíl fyrir Procar og átt hafði verið við og var til umfjöllunar í þættinum Kveiki tengist á engan hátt áðurnefndum inngripum.“

Ríkisútvarpið greinir frá því að málið sé komið inn á borð lögreglunnar. Haft er eftir henni að gögn málsins séu til skoðunar en engin kæra hafi enn borist vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert