Yfir 86% þegar búnir að semja vegna Procar-máls

Kílómetrastaða bíla sem seldir voru frá bílaleigunni Procar var fölsuð …
Kílómetrastaða bíla sem seldir voru frá bílaleigunni Procar var fölsuð í 134 skipti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Sveinn Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og einn eiganda Procar bílaleigunnar, er ákærður fyrir skjalafals og til vara fjársvik í Procar-málinu svokallaða sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Pólverjinn Pawel sem ekki er vitað meira um

Í ákæru málsins er hann sakaður um að hafa á árunum 2014-2018 hlutast til um sölu á samtals 134 bifreiðum í eigu bílaleigunnar með falsaðri kílómetrastöðu eftir að hafa án heimildar og í blekkingarskyni fengið mann, sem Haraldur hefur sagt að sé pólskur, en ekki getað gefið frekari lýsingu á en að hann hafi haft fornafnið Pawel, til að falsa með rafrænum hætti kílómetrastöðu á aksturstölvum bifreiðanna þannig að þeir sýndu færri ekna kílómetra en raunin var.

Með athæfinu gaf Haraldur ranglega til kynna að bifreiðarnar væru minna eknar heldur en þær voru í raun í þeim tilgangi að auðvelda endursölu þeirra á markaði, en með þessu blekkti hann kaupendur til að greiða hærra verð fyrir þær en nam raunverulegu verðmæti þeirra. Þá breytti Haraldur einnig skráningu kílómetrastöðunnar í tölvukerfi bílaleigunnar. Þetta segir í ákæru málsins.

Breytingin frá 2 þúsund upp í 52 þúsund 

Breytingin sem gerð var á bílunum var allt frá um tvö þúsund kílómetrum upp í 52.130 kílómetra, en breyting flestra bílanna er á bilinu 10 til 40 þúsund kílómetrar.

Fram kemur í ákærunni að í kjölfar þess að málið kom upp hafi Procar fengið aðstoð lögfræðistofu til að bæta upp tjón vegna háttseminnar og leitað hafi verið til óháðs sérfræðings sem mat verðmætarýrnun bifreiðanna vegna fölsunarinnar.

Stærstur hluti búinn að semja

Var tekin sú ákvörðun að reikna 40% ofan á hina útreiknuðu fjárhæð og bjóða sem bætur, en að lágmarki 50 þúsund krónur.

Var metið tjón af niðurfærslunum samtals 10,1 milljón, en með 40% álagi var upphæðin 14,9 milljónir. Í ágúst í fyrra var búið að greiða bætur vegna 116 bifreiða að fjárhæð 13,3 milljónir, en óuppgert var vegna 18 bifreiða.

Meðal þeirra sem fengu greiddar bætur var Ergo fjármögnunarþjónusta, Landsbankinn, Sjóvá, Landsbankinn, Bílabúð Benna, nokkrar bílaleigur og fjöldi einstaklinga og nokkur önnur fyrirtæki.

Sex þeirra sem ekki hafa samið um bætur gera kröfu í málinu um hærri upphæð en nemur þeim bótum sem Procar hafði boðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert