Dæmdur fyrir brot gegn stúlku

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi ungan mann í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi 24. janúar og greiðslu rúmlega 1,6 milljóna króna í sakarkostnað og 1,5 milljóna í miskabætur fyrir að hafa í júní 2015 brotið kynferðislega gegn stúlku í útskriftarferðalagi.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi káfað innanklæða á brjóstum, rassi og kynfærum stúlkunnar og stungið fingri inn í leggöng hennar, gegn hennar vilja þar sem hún hafi legið sofandi til hliðar við ákærða á dýnu á gólfi gistiskála. Hann hafi þannig nýtt sér það að stúlkan var sofandi. Eftir að hún hafi vaknað og maðurinn orðið þess var hafi hann haldið áfram háttsemi sinni og ekki hætt henni fyrr en stúlkan hafi komið sér frá honum.

Maðurinn viðurkenndi að hafa brotið gegn stúlkunni þótt lýsing hans hefði ekki verið nákvæmlega sú sama og hennar. Sagðist hann hafa gert sér grein fyrir því strax um nóttina þegar brotið átti sér stað og morguninn eftir að það sem hann gerði hefði verið rangt. Samskipti á milli unga mannsins og stúlkunnar, meðal annars í gegnum Facebook, þar sem maðurinn viðurkennir að hafa brotið gegn henni voru á meðal gagna í málinu.

Fram kemur í dómnum að manninum hafi ekki verið gerð refsing áður, hann hafi verið ungur að árum þegar brotið var framið, þá nýorðinn 16 ára gamall, og hafi gengist frá upphafi við brotinu þó að hann hafi ekki játað sakargiftir að öllu leyti. Þá hafi hann sótt meðferð hjá sálfræðingi. Vísað er í vottorð sálfræðingsins um að maðurinn hafi strax tekið ábyrgð á hegðun sinni og viljað gera það sem hann gæti til þess að bæta fyrir brot sitt.

Vegna þessa, sem og langs málsmeðferðartíma, en ákæra var gefin út tæpum þremur árum eftir brotið, þótti tveggja ára skilorðsbundið fangelsi viðeigandi refsing fyrir brotið.

mbl.is