Vilja að þrýst verði á Pompeo

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Slóvakíu í dag. Hann er …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Slóvakíu í dag. Hann er búinn að vera á ferð um Evrópu og kemur til Íslands á föstudaginn. AFP

Fimm ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka skora á íslensk stjórnvöld að þrýsta á Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að beita sér fyrir því að mannréttindabrot gegn börnum á landamærum þarlendis verði stöðvuð, en Pompeo er væntanlegur til Íslands næsta föstudag og mun funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Nauðsynlegt er að ríkisstjórn Íslands fordæmi aðgerðir bandarískra stjórnvalda en sé ekki aðgerðarlaus áhorfandi í slíkum alvarlegum brotum,“ segir í tilkynningu, sem Ung vinstri græn, Ungir jafnaðarmenn, Ungir Píratar, ungir meðlimir Sósíaslistaflokksins og Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, skrifa undir.

„Ekkert barn á að þurfa að alast upp í varðhaldi og engu barni, né fjölskyldu þess, skal refsað fyrir að leita öryggis. Það er ekkert pólitískt við það að bjarga lífi barna og það er mikilvægt að hafa í huga að fólk sem er á flótta, til að halda lífi, hefur rétt á réttlátri yfirheyrslu, réttarhaldi og mannúðlegri málsmeðferð.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ber ríkjum að gera það sem barni er fyrir bestu þegar kemur að ákvörðunum er snerta börn. Stefna Bandaríkjanna brýtur á ákvæðum sáttmálans og vinnur gegn tilgangi hans. Bandaríkin eru ekki að aðskilja foreldra og börn með þeirra hagsmuni að leiðarljósi heldur sem fyrirbyggjandi refsingu gegn óskráðri komu foreldra þeirra inn í landið. Stefnan mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir börnin og foreldra þeirra,“ segir í tilkynningu unglingahreyfinganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina