„Boðið er búið og mér var ekki boðið“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var steinhissa þegar þingflokknum var …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var steinhissa þegar þingflokknum var ekki boðið á fund borgarstjórnar og þingmanna Reykjavíkur í Höfða í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannleg mistök urðu til þess að boð á fund borgarstjórnar og þingmanna Reykjavíkur í Höfða í dag barst ekki Ingu Sæland, formanni Flokks Fólksins og þingmanni Reykjavíkur.

Inga Sæland vakti athygli á málinu í dag þegar fundurinn var hafinn. „Í þessum skrifuðu orðum, er nýhafinn fundur í Höfða í boði Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Allir sitjandi þingflokkar á  Alþingi Íslendinga hafa fengið slíkt boð fyrir utan Flokk fólksins,“ segir í tilkynningu frá Ingu og mótmælir hún vinnubrögðum borgarinnar harðlega og segir enga afsökun vera á þessari mismunun.

Borgin harmar mistökin

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að borgin harmi mistökin sem lýsa sér þannig að við útsendingu boðsins vantaði einn bókstaf í netfang formannsins. Um var að ræða bókstafinn „i“ í „althingi.“

„Það ætlaði enginn að skilja mig útundan, ég var þarna í fyrra. En mér finnst vinnubrögðin ekki boðleg,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

Í tilkynningu borgarinnar segir jafnframt að haft hafi verið samband við Ingu og málið útskýrt og hún beðin afsökunar. Inga segir hins vegar í samtali við blaðamann að henni hafi ekki borist formleg afsökun frá borginni.

Inga vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni og þar svarar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þar sem hann segir að Inga hafi fengið fundarboð líkt og aðrir og birtir hann mynd af netfangalistanum, máli sínu til stuðnings. Í athugasemdum við mynd Dags er honum hins vegar bent á að „i-ið“ vanti.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri benti Ingu á að hún var …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri benti Ingu á að hún var á gestalistanum en virðist ekki sjálfur hafa tekið eftir að einn staf vantaði í netfangið. Skjáskot/Facebook

„„Postmasterinn“ klikkar ekki“

Inga setur spurningamerki við það að sá sem sendi póstinn fyrir hönd borgarinnar hafi ekki fengið tilkynningu um að netfangið inga@althing.is væri ekki til og því hefði pósturinn ekki borist.

„Um leið og þau senda þennan pakka og það vantar „i“ hjá mér, þá eiga þau að fá til baka að afhending skeytisins hafi mistekist. „Postmasterinn“ klikkar ekki þegar þú sendir á rangt netfang,“ segir Inga og tekur dæmi um að hún hafi sjálf lent í því fyrr í dag að senda póst á rangt netfang og fengið um það tilkynningu.  

Inga býst ekki við af neinum eftirmálum vegna málsins. „Það þýðir ekkert fyrir mig að vera að góla núna. Boðið er búið og mér var ekki boðið. En þetta verður vonandi til þess að fólk tekur mark á því þegar hlutirnir gangi ekki eins og til er ætlast. Þetta eru mistök.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert