Í vímu með börnin í bílnum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bifreið um kvöldmatarleytið í gær í Garðabæ. Eftir að lögreglan hafði gefið ökumanni bifreiðarinnar merki um að stöðva bifreiðina (það er með því að setja upp blá ljós) skiptu ökumaður og farþegi um sæti áður en bifreiðin var stöðvuð. 

Í bifreiðinni var par með tvö ung börn og er parið kært fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og að hafa ekki notað öryggisbelti við akstur. Börnunum var ekið heim og komið í öruggar hendur meðan unnið var í málinu. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að barnaverndaryfirvöldum hafi verið tilkynnt um málið.

Klukkutíma fyrr hafði lögreglan stöðvað bifreið á Reykjanesbrautinni en ökumaður þeirrar bifreiðar er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Sextán ára gömul þunguð stúlka var farþegi í bifreiðinni og tilkynning því send til barnaverndar í því máli einnig.

Lögreglan hafði afskipti af sjö öðrum ökumönnum vegna brota á lögum.

Ökumaður sem var stöðvaður í hverfi 104 síðdegis í gær en hann reyndist vera án réttinda þ.e. hafði ekki endurnýjað ökuréttindi sín. Sama á við um ökumann sem var stöðvaður í hverfi 108 á sjöunda tímanum í gær. 

Síðdegis í gær var ökumaður stöðvaður í hverfi 110 grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður var stöðvaður í hverfi 108 fyrir sama brot í gærkvöldi. Í nótt hafði síðan lögregla afskipt af manni í hverfi 101 vegna vörslu fíkniefna.

Á tólfta tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreiða á Vesturlandsvegi en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Í nótt var síðan bifreið stöðvuð í Hafnarfirðinum en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk þess að aka ítrekað sviptur ökuréttindum.

Lögreglan stöðvaði bifreið á Reykjanesbraut í nótt eftir hraðamælingu en bifreiðinni var ekið á 108 km hraða þar sem heimilt er að aka á 80 km/klst. Ökumaðurinn sýndi merki um áfengisneyslu en mældist undir refsimörkum og var aksturinn því stöðvaður og lyklar haldlagðir.

mbl.is