Sérstakt Hatara-horn í Partýbúðinni

Tilvalinn klæðnaður á öskudag.
Tilvalinn klæðnaður á öskudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að selja rosalega mikið af Fortnite-búningum,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, verslunarstjóri í Partýbúðinni, en öskudagur er á miðvikudag. Auk þess segir hún að mikið hafi selst af Harry Potter-búningum.

„Ertu að leita að svarinu að við séum að selja rosalega mikið af Hatara-búningum?“ spyr Valgerður og hlær þegar blaðamaður játar því.

„Við erum búin að setja upp Hatara-horn en við förum ekkert hátt með það. Við eigum einhverjar keðjur, leðurhanska og svoleiðis,“ segir Valgerður.

Hornið tileinkað Eurovision-förunum er nýtilkomið en Valgerður setti það upp í morgun. Hún segist ekki hafa fengið margar spurningar tengdar Hatara og telur sig vita hvers vegna það er:

Krakkarnir eru flestir löngu búnir að ákveða hvað þeir ætla að vera og þau skipta ekkert um skoðun.

Búningar tengdir tölvuleiknum Fortnite eru vinsælir í ár.
Búningar tengdir tölvuleiknum Fortnite eru vinsælir í ár.

Þórhallur Árnason, starfsmaður í Hókus Pókus, tekur undir vinsældir Fortnite-búninganna. Hann segir þó að salan dreifist mikið en tekur fram að fyrir utan Fortnite séu Harry Potter og Hvolpasveitin vinsæl í ár.

„Við erum með einhverjar ólar en ekki heila búninga eins og þeir eru í,“ segir Þórhallur þegar hann er spurður um Hatara-búninga. „Við erum líka með belti og „chokera“,“ segir Þórhallur.

Hann segir að erfitt hafi verið að sjá fyrir hvort krakkar vildu klæða sig upp sem Eurovision-stjörnurnar og að einhverjar fyrirspurnir hafi borist vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert