Ungar athafnakonur fylltu Hörpu

Yf­ir­skrift UAK-dags­ins, sem fram fór í dag í Hörpu, er …
Yf­ir­skrift UAK-dags­ins, sem fram fór í dag í Hörpu, er „Brotið glerþak til fram­búðar“. mbl.is/Eggert

Húsfyllir var á ráðstefnu Ungra athafnakvenna, UAK deginum, sem fram fór í Hörpu í dag. Ráðstefnan er tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu og yfirskrift hennar var Brotið glerþak til frambúðar.

Frú Vigdís Finnbogadóttir opnaði ráðstefnuna og sagði frá sinni reynslu í byltingum og jafnréttismálum.

„Í gegnum árin þar sem ég hef verið á ferð þar sem konur hafa lítið andlegt vægi hef ég lagt áherslu á að allir bræður og allir feður vita að dóttirin og systurnar eru jafn klárar og þeir sjálfir. Við konur í þróunarlöndum hef ég löngum sagt: „Lærið að lesa, lærið að lesa, lærið að lesa og reynið að afla ykkur þekkingar til jafns við bræður ykkar.“.“ Hún ítrekaði það sem löngum hefur verið sagt um jafnvægi og mannréttindi í heiminum: „Þekking og skilningur eru lykillinn að jafnrétti.“

Næst í pontu var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Hún sagði kvenréttindabaráttuna samfellu, eða eins konar keðju, sem einkennist af núningi og spennu, flekaskilum yfirborðsgerðar og grunngerðar, sem gjósi reglulega. „Rauðsokkuhreyfingin, framboð Vigdísar Finnbogadóttur og framboð Kvennahreyfingarinnar voru gos. Mörg gos hafa síðan bæst í hópinn, misjafnlega stór, og smám saman verður til heilt eldfjall af reynslu og þekkingu.“

Ansi margar hindranir á leiðinni

Ragnhildur Ágústsdóttir ræddi hindranir sem hafa orðið á vegi hennar. Talaði hún um hindranir í persónulega lífinu en einnig í störfum sínum en Ragnhildur er sölustjóri samstarfsaðila hjá Microsoft.

„Samhliða þessum verkefnum hef ég líka verið að vinna í tæknigeiranum og kynnst því að það eru ansi margar hindranir á leiðinni,“ sagði Ragnhildur og nefnir meðal annars rannsóknir sem sýna að konur taki miklu meiri ábyrgð á ólaunaðri vinnu innan heimilisins og ómeðvitaða hlutdrægni, sem hún segir alla seka um, sem birtist meðal annars í því að konur séu ekki metnar að verðleikum í ráðningarferlinu og fái færri tækifæri.

Ragnhildur Ágústsdóttir ræddi hindranir sem hafa orðið á vegi hennar. …
Ragnhildur Ágústsdóttir ræddi hindranir sem hafa orðið á vegi hennar. Talaði hún um hindranir í persónulega lífinu en einnig í störfum sínum en Ragnhildur er sölustjóri samstarfsaðila hjá Microsoft. mbl.is/Eggert

„Þetta er okkar að breyta. Við verðum að gera eitthvað í þessu,“ sagði Ragnhildur og gaf ráðstefnugestum góð ráð til þess að komast áfram í atvinnulífinu og ræddi í því samhengi umsóknir um störf, starfsviðtöl, laun, starfsþróun og tækifæri.

„Einhverra hluta vegna hefur það þróast í þá átt að við sækjum ekki um störf nema við tikkum í öll boxin. Strákar hafa meiri tilhneigingu til að sækja um störf þar sem þeir tikka bara í 70% af boxunum. Þú þarft ekki endilega að tikka í öll boxin. Það má læra ýmislegt í starfinu,“ útskýrði Ragnhildur.

Aðrir sem komu fram á UAK-deginum voru Bergur Ebbi, María Rut Kristinsdóttir og Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir.

Fjölbreytt dagskrá í formi fyrirlestra og umræðna

Auk fyrirlestra voru tvær panelumræður á dagskrá. Fyrri panelumræðan bar heitið Frá byltingum og bakslögum til aðgerða. Þar stýrði Auður Albertsdóttir umræðum um reynslu af byltingum samtímans og hvernig megi tryggja aðgerðir í framhaldinu. Gestir panelsins voru Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson.

Seinni panelumræða ráðstefnunnar bar heitið Er pláss fyrir konur á toppnum? Þá var hið umtalaða glerþak í brennidepli og Edda Sif Pálsdóttir stýrði umræðum. Gestir panelsins voru Helga Valfells, Lilja Gylfadóttir, Páll Harðarson og Stefán Sigurðsson.

Félagið Ungar athafnakonur (UAK) var upphaflega stofnað í maí 2014 af Lilju Gylfadóttur. Ungar athafnakonur er félag sem vill stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. UAK er jafnframt félag fyrir konur sem vilja skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að brjóta á bak aftur hindranir sem ungar konur á vinnumarkaði standa frammi fyrir í dag.

Auður Albertsdóttir (lengst til hægri) stýrði umræðum um reynslu af …
Auður Albertsdóttir (lengst til hægri) stýrði umræðum um reynslu af byltingum samtímans og hvernig megi tryggja aðgerðir í framhaldinu. Gestir panelsins voru Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson. Ljósmynd/UAK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert