41,8% segjast styðja ríkisstjórnina

Tæplega 42% segjast styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Tæplega 42% segjast styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hækkaði um eitt prósentustig milli kannana MMR og mælist nú 23,6% miðað við 22,7% í síðustu könnun. Flokkurinn hlaut 25,2% atkvæða í kosningum. VG bætti við sig 0,3 prósentustigum og mælist með 11,4% fylgi, en Framsóknarflokkurinn tapar nokkru fylgi og mælist nú með 11,1% en var með 13,5% fylgi í könnun MMR í febrúar.

Þá segjast 41,8% styðja ríkisstjórnina, en 42,8% sögðust styðja ríkisstjórnina við síðustu mælingu.

Píratar hástökkvari

Samfylkingin mælist næststærsti flokkur landsins með 13,8% fylgi, en hefur tapað tveimur prósentustigum. Píratar eru hástökkvarar könnunarinnar og hafa bætt við sig rúmlega þremur prósentustigum og mælist flokkurinn með 13,6% fylgi.

Viðreisn mælist með 9,4%, en fylgi þeirra var 8,1% í síðustu könnun. Miðflokkurinn bætir einnig við sig fylgi og fór úr 6,1% í 8%. Flokkur fólksins mælist nú með 4,7% fylgi og Sósíalistaflokkurinn með 2,5%.

Könnunin var framkvæmd dagana 11.-14. mars, en dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var tilkynntur morguninn 12. mars. Svarfjöldi var 1.025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert