Kona slasaðist á Esjunni

Útkall varð hjá björgunarsveitunum í kvöld vegna konu sem slasaðist …
Útkall varð hjá björgunarsveitunum í kvöld vegna konu sem slasaðist við göngu í Esjunni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson.

Björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan hálfátta í kvöld vegna konu sem hafði slasast í grjóthruni á Esjunni neðan við Stein, segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Hún virðist hafa verið minna slösuð en leit út í fyrstu, enda fikraði hún sig niður fjallið af sjálfsdáðum með hóp sem hún var í. Kortér yfir átta var komið að henni,“ segir Davíð. Hann segir að konunni hafi verið komið niður með sexhjóli, en björgunarsveitarmenn höfðu komið til móts við konuna bæði gangandi og akandi.

Samkvæmt vaktstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort konan verði færð til aðhlynningar á spítala. Er hún nýkomin af fjallinu og verið að skoða hana þar.

Héldu sig á göngustígnum

„Það var þoka þarna niður í miðjar hlíðar sem gerir það erfiðara að staðsetja fólkið, en það náði nú að tilkynna sig inn og upplýsa hvar þau voru,“ segir Davíð og kveður fólkið hafa verið á göngustíg. 

„Það er alltaf varhugavert að vera í útivist á Íslandi. Það er alltaf von á alls konar veðrum og þoka gerir það helst að verkum að fólk villist, en þau héldu sig bara á stígnum,“ útskýrir hann og segir björgunarsveitir hafa farið upp með stígum úr tveimur áttum til þess að vera öruggar um að finna gönguhópinn.

Davíð segir að sem betur fer hafi ekki verið um stórkostlega hættu að ræða.

Bætt við 19. mars:

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var konan með mar, sár og skrámur á höndum og fótum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert