Forsætisráðherra „gúgglaði“ hamingjuna

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í tilefni af alþjóðlega hamingjudeginum, sem er í dag, ákvað Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að „gúggla“ hamingjuna. Afrakstur „gúgglsins“ kynnti hún þegar hún setti málþing sem embætti landlæknis stendur fyrir í dag undir yfirskriftinni: Hamingja, heilsa og vellíðan - samfélagsleg ábyrgð?

„Það áhugaverðasta sem kom upp úr því var uppskrift að léttlopapeysu, opinni, sem bar heitið Hamingja. Hún var röndótt í mjög mörgum fallegum björtum litum. Svo ég hugsaði: Ef hamningjan er léttlopapeysa þá endurspeglar þessi peysa fjölbreytileika og birtu,“ sagði Katrín.

Forsætisráðherra fór um víðan völl í ávarpi sínu og allt aftur til fornaldar um mismunandi hugtök um hamingju. Þá sagði hún einnig að hamingjan væri svo sannarlega eitt af grundvallaratriðum tilverunnar.

Er hamingjan farsæld eða hugarástand?

Katrín vísaði í fræðimenn heimspekinnar sem hafa rannsakað hamingjuna í margar aldir. „Innan heimspekinnar eru tvær leiðir til að tala um hamingjuna. Við tölum um hamingjuna sem farsæld, það sem er gott fyrir samfélagið og einstaklinginn og snýst um ákveðna gæfu, og hinn skólinn innan heimspekinnar er að hamingja er hugarástand, andstæðan við depurðina, leiðann og merkir þá frekar gleði eða sæla,“ sagði Katrín.

Í „gúgglinu“ komst ráðherra líka að því að árið 2008 komu út fjögur þúsund bækur um hamingjuna, samanborið við 50 bækur árið 2000. „Og það segir okkur eitthvað um það hversu mikið við leitum hamingjunnar og teljum að hún sé ekki eitthvað sem komi með skapanorninni heldur eitthvað sem við getum fundið og tryggt okkur með því að nota réttu aðferðirnar því við viljum öll verða hamingjusöm,“ sagði Katrín.

Ráðherrann vísaði einnig í niðurstöður nýrrar skýrslu sem birt var í dag þar sem fram kemur að Finnar eru hamingjusamasta þjóð í heimi. Danir og Norðmenn eru í næstu tveimur sætum og Íslendingar komar þar á eftir sem fjórða hamingjusamasta þjóð í heimi.

„Það er áhugavert ef við veltum því fyrir okkur hvort erum við að hugsa um hamingjuna sem farsæld eða hamingjuna sem hugarástand, gleðiástand, þegar við tölum um þetta? Ef við skoðum þessi lönd sem raða sér efst eru þetta tvímælalaust lönd sem eru mjög farsæld í samfélagslegu tilliti, lönd þar sem jöfnuður er mikill og hugað er að umhverfismálum í samhengi við efnahag og samfélagsþróun,“ sagði Katrín.

Hamingjan eykst ekki með fleiri krónum og aurum

Hún benti jafnframt á að í þessum fjóru efstu löndum, sem öll tilheyra Norðurlöndunum, eru mikil lífsgæði. „Þarna erum við kannski að hugsa um farsæld. En erum við að hugsa um farsæld þegar við förum og kaupum allar þessa 4000 bækur um hvernig við ætlum að vera hamingjusöm? Erum við þá að leita að hugarástandinu? Ég held að við getum sagt það, og það eru ýmsar rannsóknir sem benda til þess, að þegar ákveðnar lífsþarfir eru uppfylltar, þá eykst hamingjan ekki við það að eignast fleiri krónur og aura, og það er mikilvæg hugmynd að ef við metum hamingjuna sem farsæld þá snýst farsældin um þetta að hafa þetta mikilvæga jafnvægi í lífinu á milli efnahagslegra, samfélagslegra, umhverfis- og jafnvel menningarlegra þátta,“ sagði Katrín.

Að lokum sagði Katrín hamingjuna vera mikilvægt lýðheilsumál og að hún ætli að njóta þess að vera ráðherra hamingjunnar í dag.

Hér að neðan má fylgjast með málþinginu í beinni. Dagskráin hófst klukkan 13 og lýkur klukkan 16. Hér má skoða dagskrána.  



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert