Tekið tillit til sjónarmiða BSRB

Frá undirritun kjarasamninganna í gær.
Frá undirritun kjarasamninganna í gær. mbl.is/​Hari

Fjölmörg atriði eru í kjarasamningunum sem voru undirritaðir í gærkvöldi sem geta bætt kjör launafólks og því ber að fagna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB.

Bandalagið tók þátt í samtalinu við stjórnvöld og hefur að einhverju leyti verið tekið tillit til áherslna BSRB í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að því er segir í tilkynningunni.

Kjarasamningar þorra aðildarfélaga BSRB losnuðu um síðustu mánaðamót og hafa félögin veitt BSRB samningsumboð í ýmsum sameiginlegum málum, svo sem um styttingu vinnuvikunnar. Félögin semja svo hvert fyrir sig um launabreytingar og önnur sértæk málefni.

„Við fögnum því auðvitað að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða sem BSRB hefur haldið á lofti í samtalinu við stjórnvöld vegna kjarasamninga á almenna markaðinum. Það er þó alveg skýrt í okkar huga að samtalið verður að halda áfram samhliða okkar kjarasamningsgerð,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í tilkynningunni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/BSRB

Þar er talað um að stjórnvöld lofi í yfirlýsingu sinni tekjuskattslækkunum sem munu nýtast tekjulægstu hópunum betur en áður hafi verið áformað. „BSRB hefur ekki beitt sér fyrir skattalækkunum, en telur að sé svigrúm til þess að lækka skatta eigi að nýta það til að létta álögum af þeim tekjulægstu. Stjórnvöld bregðast einnig við þeirri kröfu að draga úr skerðingum á barnabótum sem bandalagið hefur haldið mjög á lofti í samtalinu við stjórnvöld,“ segir í tilkynningunni. 

„Það er einnig fagnaðarefni að fæðingarorlofið verði lengt úr 9 mánuðum í 12 eins og BSRB hefur barist fyrir árum saman, að framlög til að stuðla að uppbyggingu íbúðafélaga líkt og Bjargs, íbúðafélags ASÍ og BSRB, verði aukin og unnið verði út frá tillögum átakshóps um húsnæðismál.“

 „Við hjá BSRB erum með mjög skýrt umboð og skilaboð frá félagsmönnum aðildarfélaga okkar. Forgangsmál okkar eru þau að fólk geti lifað af á laununum sínum og að við styttum vinnuvikuna hjá launafólki. Viðræðurnar við okkar viðsemjendur eru hafnar og við reiknum með því að nú þegar stærstu verkalýðsfélögin á almenna vinnumarkaðinum hafa undirritað kjarasamninga aukist þunginn enn frekar í okkar kjarasamningsviðræðum,“ segir Sonja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert