Vilja eignast Sigurfara

Kútter Sigurfari.
Kútter Sigurfari. Ljósmynd/Akraneskaupstaður

Haft hefur verið samband við Akraneskaupstað og lýst áhuga á að eignast kútter Sigurfara. þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, í samtali við mbl.is. Áhugasamir aðilar hafi haft samband í gær.

Sævar segist ekki hafa kannað hvort fleiri hafi haft samband í dag, en bæjarráð Akraness samþykkti á dögunum að óska eftir því að fá leyfi frá Minjastofnun fyrir því að farga Sigurfara sem staðið hefur við Byggðasafnið í Görðum undanfarna áratugi, en kútterinn var smíðaður árið 1885 í Englandi og keyptur til Íslands 1897.

Fram kom í bréfinu að áður en til förgunar kæmi yrði áhugasömum aðilum gefinn kostur á að eignast Sigurfara. Ef ekki næðist samkomulag um það yrði skipinu fargað. Sævar segir aðspurður að komi til þess, verði skipið ekki selt heldur afhent viðkomandi að kostnaðarlausu. Hins vegar yrði það ekki gert nema í samráði við bæði Minjastofnun og Þjóðminjasafnið og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert