Námsvalshjól á vef Háskóla Íslands

Námsvalshjólið er fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
Námsvalshjólið er fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Háskóli Íslands hefur þróað námsvalshjól á vef skólans sem ætlað er að styðja við markvissara námsval nemenda út frá áhugasviðum auk þess að draga úr brottfalli og tilfærslu nemenda milli námsleiða eftir að nám er hafið. Finna má allar námsleiðir skólans í grunnnámi í hjólinu.

Í fréttatilkynningu kemur fram að námsvalshjólið sé hannað með þarfir nemenda í forgrunni en með þróun þess verða tengsl á milli þeirra tæplega hundrað námsleiða sem eru í boði í grunnnámi margfalt sýnilegri, bæði innan fræðasviða Háskóla Íslands og þvert á sviðin. Nemendur fái því betri heildarsýn á námsframboð skólans og þá möguleika sem þeim standa til boða í framtíðinni. „Hjólið hefur verið þróað til að treysta að nemendur finni þær leiðir þar sem þeir njóta sín best og að menntun þeirra gagnist þar með sem mest íslensku samfélagi.“ 

Allar námsleiðir í grunnnámi í Háskóla Íslands hafa verið skilgreindar í 10 aðgengilega flokka í námsvalshjólinu út frá viðfangsefnum en meðal þeirra má nefna lífríki, umhverfi og auðlindir; samfélag og stjórnmál; heilsu, líðan og líkama; tungumál og málvísindi og kennslu, siðfræði og mannlega hegðun. Flokkunin gerir því notendum kleift að kynna sér nám út frá því viðfangsefni sem höfðar til áhugasviðs þeirra og val á námi verður um leið markvissara.

Með styttingu námstíma til stúdentsprófs þurfa framhaldsskólanemar nú að kynna sér fyrr en áður þá möguleika sem þeir hafa í háskólanámi út frá þeim leiðum sem þeir velja sér í framhaldsskóla. Námsvalshjólið einfaldar nemendum til muna að finna þær námsleiðir sem mögulega tengjast þeim brautum sem þeir hafa valið sér í framhaldsskóla.

Námsvalshjólið nýtist jafnframt í náms- og starfsráðgjöf bæði í Háskóla Íslands og grunn- og framhaldsskólum.

Námsvalshjólið er fyrsta sinnar tegundar hér á landi, segir í tilkynningunni, en svipuð verkfæri hafa verið notuð með góðum árangri erlendis. Hjólið á vef Háskóla Íslands byggist á fyrirmynd frá Kaupmannahafnarháskóla en hefur verið þróað og aðlagað námsframboði og kennslu í Háskóla Íslands auk þess sem það styðst við greiningu og flokkun sem unnin hefur verið innan atvinnulífsins. Við þróun þess var bæði haft samráð við fræðimenn í náms- og starfsráðgjöf innan Háskólans og fulltrúa frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Námsvalshjólið má skoða á vef Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert