Aldrei verið meira krefjandi

Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, segir ekki hæt að taka við …
Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, segir ekki hæt að taka við ráðinu á meiri krefjandi tíma. Ljósmynd/Arctic Council

„Það er ekki hægt að taka við Norðurskautsráðinu á meiri krefjandi tíma heldur en núna. Þannig að við erum meðvituð um að verkefnið er stórt og krefst mikillar vinnu. Við erum tilbúin í það,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Ísland tók við formennsku í ráðinu í dag af Finnlandi. „Við tökum við góðu starfi frá Finnum og munum halda því áfram.“

„Norðurskautsráðið hefur aldrei verið með meira vægi í alþjóðasamfélaginu heldur en núna og áhuginn á ráðinu er gríðarlega mikið. Það sýnir sig í því að það er í annað skipti í sögunni sem allir ráðherrarnir í ráðinu mæta,“  segir Guðlaugur.

Hann segir Ísland hinsvegar hafa sínar sérstöku áherslur hvað starf ráðsins varðar, sérstaklega sjálfbærni. „Sjálfbærni nær ekki bara til umhverfismála, en einnig félagsmála og efnahagsmála. Síðan erum við með fjögur forgangsmál,“ segir Guðlaugur og vísar til málefni hafsins, loftslagsmálin og hagmuni þeirra 4 milljóna manna sem búa á norðurslóðum.

Engin yfirlýsing fundar

Engin yfirlýsing var gefin út af fundi ráðsins í Rovaniemi í Finnlandi í dag andstætt venju. „Niðurstaðan var að fara þessa leið að vera með sameiginlega ráðherrayfirlýsingu, sömuleiðis var yfirlýsing frá formanni og við höfum fengið mjög góð viðbrögð við okkar áherslum. Þannig að þetta er gott veganesti fyrir okkur næstu árin,“ útskýrir ráðherrann.

Spurður hvort einhver ágreiningur hafi valdið því að ekki var samþykkt yfirlýsing á fundinum sjálfum segir Guðlaugur: „Þetta er alltaf það sama þegar um er að ræða alþjóðlegt samstarf eins og í Norðurskautsráðinu, þá þarf að vera samstaða meðal allra og niðurstaðan var sú að fara þessa leið í þetta skipti.“

„Þetta voru góðir fundir og mikil samstaða um starfsemi ráðsins og mikilvægi þess að það halda áfram þessu starfi,“ segir Guðlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert